Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Greining sýna gengið vel þrátt fyrir mikið álag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikið álag hefur verið á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans undanfarið en deildin sér um greiningu á COVID-19 sýnum. Svo mikill hefur fjöldi sýna verið að síðustu tvo daga hefur ekki tekist að birta staðfestar heildartölur yfir covid-smit klukkan 11:00 eins og venjan er.

Karl G. Kristinsson yfirlæknir deildarinnar segir að vinnan hafi gengið vel þrátt fyrir mikið álag og sumarfrí starfsfólks.

„Það er búið að ganga mjög vel í dag og í gær. Mjög mikið af sýnum svo það hefur verið mikið álag á starfsfólkinu og unnið fram eftir. Í gær greindum við um 5.400 sýni með tilliti til kórónuveirunnar og um 400 önnur veirusýni,“ sagði Karl í samtali við fréttastofu.

Unnið er að greiningunni á tveimur vöktum og segir Karl að það takmarki afköst hve mörg sýni komist í gegnum tækjabúnað deildarinnar. Hver vakt geti greint um 2.500 sýni svo að ef allt gangi upp sé hægt að greina að mesta lagi 5.000 sýni. Oft þurfi þó að endurtaka ferlið og því ekki hægt að ná hámarkstölu.

Tölur um Covid-19 smit hafa verið birt nær daglega í um eitt og hálft ár. Karl segir andanna í starfsmannahópnum merkilega góðan þrátt fyrir þessa löngu og krefjandi törn.

„Þess vegna erum við að reyna að koma fólkinu í sumarfrí og viljum ekki kalla þau úr sumarfríi. Við tökum einn dag í einu og vitum nú aldrei á hverju við eigum von,“ segir Karl. Mikið hefur verið rætt um mönnunarvanda innan heilbrigðiskerfisins.

Karl segir að auðvitað væri ákjósanlegt að hafa fleira fólk í vinnu en eins og áður segir sé verið að reyna að hlífa fólki frá því að þurfa að stytta sumarfríið sitt. „Sumarið hjá okkur í fyrra var í raun ekkert auðveldara. Þetta er búið að vera löng og ströng törn hjá okkur í að verða eitt og hálft ár.“

17 starfsmenn Landspítala í einangrun

Auk þess að sumarfrí starfsmanna kunni að setja strik í reikninginn er þónokkur fjöldi frá vinnu vegna kórónuveirusmita eða sóttkvíar. Alls eru 17 starfsmenn Landspítala í einangrun vegna veirunnar, 35 eru í sóttkví A og í vinnusóttkví eru alls 165 starfsmenn.

Samkvæmt tilkynningu frá farsóttarnefnd Landspítala hefur áætlun um fjölgun covid-rýma verið ræst og stendur nú yfir vinna við að breyta smitsjúkdómadeild A7 í farsóttareiningu. Á meðan er lungnadeild A6 í viðbragðsstöðu, sem og gjörgæsludeildir.

Þá segir í tilkynningu að verið sé að huga að því að kalla fólk inn til starfa úr orlofi. Viðbragðsstjórn vilji biðla til starfsfólks sem hefur þurft að breyta áætlunum vegna faraldursins og gæti hugsað sér að fresta orlofi til að gefa sig fram við yfirmenn.

Andri Magnús Eysteinsson