Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Gaman að fá að synda aftur og bæta mig“

Mynd: RÚV / RÚV

„Gaman að fá að synda aftur og bæta mig“

28.07.2021 - 13:03
Snæfríður Sól Jórunnardóttir lauk keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun þegar hún setti persónulegt met í 100 metra skriðsundi. Hún segir það hafa verið gaman að fá að synda aftur og bæta sig.

Snæfríður synti í þriðja riðli af sjö en hennar besti tími í 100 metra skriðsundi fyrir daginn í dag var 56,32 sek. Hún var síðust í riðlinum eftir 50 metra en synti seinni 50 metrana af miklum krafti og vann sig upp í 4. sætið í riðlinum. Tími Snæfríðar var 56,15 sek og hún bætti því sinn besta tíma um 17/100 úr sekúndu. Íslandsmetið í greininni á Ragnheiður Ragnarsdóttir, 55,66 sek. sett árið 2009.

Tíminn dugði þó ekki í undanúrslit og Snæfríður endaði í 34. sæti af 52 keppendum. Hún segir sundið þó hafa heppnast ágætlega og gaman hafi verið að fá að synda aftur á Ólympíuleikum. Stressið hafi sömuleiðis verið örlítið minna í þessu sundi en á mánudag þegar hún synti 200 metra skriðsund og setti Íslandsmet. 

Hún er ánægð með árangur sinn á leikunum og segir að næst sé komið að sumarfríi áður en hún snýr sér aftur að æfingum. 

Viðtal við Snæfríði má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.