Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fréttir: Fimm lagðir inn í gær

28.07.2021 - 12:12
Fimm covid-smitaðir voru lagðir inn á Landspítalann í gær, flestir með undirliggjandi sjúkdóma. Einn er á gjörgæslu, sá er óbólusettur. Að minnsta kosti 115 greindust innanlands í gær. Rýmum verður fjölgað á farsóttardeild í dag.

 

Ástandið á dvalarheimilinu Grund er alvarlegt að sögn forstjóra. Tveir heimilismenn hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni.

Tveir all-stórir jarðskjálftar urðu í Bárðarbungu í gærkvöld.  Sennilega er eldstöðin enn að jafna sig eftir gosið í Holuhrauni fyrir sex árum. 

Sautján þingmenn, þrettán karlar og fjórar konur, verða ekki í framboði í alþingiskosningum í haust. Endurnýjun er á listum flestra flokka, en allir þingmenn Viðreisnar og báðir þingmenn Flokks fólksins gefa kost á sér til endurkjörs.

Sýrlenskur læknir hefur verið ákærður í Þýskalandi fyrir glæpi gegn mannkyni. Hann er sakaður um að hafa pyntað sjúklinga í Sýrlandsstríðinu á síðasta áratug.

Stærsta ferðahelgi ársins verður með allra minnsta móti þetta árið. Ekki er unnt að halda stórar hátíðir líkt og venja er. Veðurútlitið er lýsandi fyrir þetta sumarið, blíða norðan og austanlands, en dropar gætu fallið sunnan heiða. 

Selastofninn virðist vera í vexti, miðað við niðurstöður selatalningar sem gerð var á Vatnsnesi um helgina.

Simone Biles verður ekki meðal keppenda í fjölþraut kvenna á Ólympíuleikunum á morgun. Biles tók þessa ákvörðun til að huga að andlegri heilsu sinni. 
 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV