Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm lagðir inn í gær - Einn á gjörgæslu

28.07.2021 - 09:52
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Átta liggja nú á spítala smitaðir af COVID-19. Fimm voru lagðir inn á Landspítalann eftir klukkan 16 í gær.

Einn af átta sjúklingum liggur þá á gjörgæsludeild en Vísir greindi fyrst frá. Í samtali við fréttastofu segir Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri farsóttarnefndar Landspítala, að sjúklingarnir séu sumir fullbólusettir og aðrir óbólusettir.

Göngudeild hafi tekið ákvörðun um innlögn í samstarfi við vakthafandi smitsjúkdómalækni. Sumir sjúklinganna hafi áður verið flokkaðir sem gulir á litakóðun göngudeildarinnar þ.e.  sjúklingar með mismikil einkenni og eftirlit þeirra stýrist af áhættumati og líkum á frekari veikindum.

Hildur segir einkenni sem geti orðið til innlagnar vera mismunandi eftir einstaklingum. „Meltingafæraeinkenni, öndunareinkenni, hvort sjúklingur eigi erfitt með súrefni,“ sagði Hildur.

Smittölur hafa hækkað með hverjum deginum undanfarna viku og í gær var sett nýtt met í fjölda greindra. 123 ný smit greindust í gær en þá voru 13 starfsmenn Landspítala í einangrun og alls 179 í sóttkví.

Hildur segist eiga von á því að tölur um starfsfólk Landspítala fari hækkandi. Það ýti undir þá áskorun sem Landspítalinn standi frammi fyrir. Mönnunarvandi hefur verið til umræðu undanfarið og nú stendur yfir ein vinsælasta sumarleyfisvika spítalans. Það geri því áskorunina sem fylgir auknum innlögnum covid-sjúklingar erfiðari en ella.

Landspítalinn undirbúi þó fjölgun rúma fyrir COVID-19 sjúklinga til þess að geta bætt þjónustuna.