Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Byrjar plötuna í óspilltri náttúru og myrðir hana svo

Mynd: Tumi Árnason / Aðsend

Byrjar plötuna í óspilltri náttúru og myrðir hana svo

28.07.2021 - 12:16

Höfundar

Í upphafi plötunnar Hlýnun eftir Tuma Árnason málar tónskáldið hljóðmynd af lífkerfi með hámarksfjölbreytileika og jafnvægi. Þegar líður á plötuna verður inngrip í friðsældina, líkt og inngrip mannsins í náttúruna, og að lokum leysist hún upp og deyr þegar henni lýkur.

Á föstudag kom út ný plata Tuma Árnasonar saxafónleikara sem nefnist Hlýnun. Hugmyndina hafði hann gengið með og þróað í kollinum um hríð. Í febrúar 2020 hófust loks upptökur og við tók löng og ströng meðganga.

Í textanum sem fylgir plötunni má lesa djúpar pælingar sem tengjast þema hennar. Platan var að miklu leyti tekin upp í spuna og segir í textanum að skynjunin sé hulin í endurómi þess sem gerist. „Kjarni spunans, ég held að það sé eitthvað sem maður kemst að eftir á. Á þessari plötu lagði ég upp með allt of stóra hugmynd, ætlaði að reyna að segja eitthvað konkret með jafn loðnum miðli og frjáls spunatónlist er,“ segir Tumi í samtali við Pétur Grétarsson á Rás 1.

Tumi skrifaði nótur og bjó til ramma í kringum spunann sem svo átti sér stað, en leyfði meðspilurunum að setja sitt mark á ferðalag spunans. „Ég er rosalega lítið fyrir að líta á mig sem alviturt tónkáld, ég vil endilega fá inpúttið frá meðspilurunum. Samvinnan sem felst í spunanum er lykilatriði í þessu öllu saman. Útkoman birtist ekki fyrr en platan var tilbúin.“ Afurðin er bæði það sem hann sá fyrir sér og svo kom hún honum líka á óvart. „Markmiðinu hlýtur að vera algjörlega náð að því leyti,“ segir hann stoltur.

Tumi lagði upp með að horfa á verkið sem eins konar lífkerfi. Í upphafi verksins má skynja hámarksfjölbreytileika og jafnvægi, „eins og myndi vera í regnskógi sem hefur ekki verið raskað,“ segir hann. Til að ná þessum áhrifum notar hann tólftónakerfið sem stendur fyrir allar mögulegar auðlindir í skipulögðu kaosi. „Við erum að ganga í gegnum fimmundahringinn. Ég er í gegnum verkið að draga inn pedalpunkta og dróntóna til að gefa þessu nýtt samhengi og í raun leysir plötuna upp. Ég myrði hana hálfpartinn.“ Í bland við hljóðfæraleik má heyra umhverfishljóð, svo sem fuglasöng og hljóð frá olíuborpöllum sem færa hlustandann enn nær sögunni.

Í upphafi verksins ríkir því náttúrulegur glundroði, eins og í vistkerfi, þar sem úir og grúir af ýmsu. Svo verður inngrip, sem svipar til inngrips mannsins í náttúruna. „Við byrjum allir saman og svo er hver á sínum hraða. Við byrjum á mismunandi stöðum sem er harmónískt og svo í raun vildi ég að þetta væri ófyrirsjáanlegt,“ segir Tumi.

Tumi er með fleiri plötur í smíðum og í höfði hans fljúga ferskar hugmyndir sem hann hlakkar til að hrinda í framkvæmd.