Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Allt með kyrrum kjörum í Geldingadölum og Bárðarbungu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Allt hefur verið með kyrrum kjörum í Geldingadölum í gær og nótt. Nú rýkur aðeins upp af gígnum og sérfræðingar veðurstofunnar bíða eftir hvað gosið geri næst. Bárðarbunga hefur einnig haft hægt um sig í nótt eftir jarðskjálfta í gærkvöldi.

Tveir öflugir skjálftar mældust í Bárðarbungu í gærkvöldi, í Norð-vestanverðum Vatnajökli. Sá fyrri 3,3 að stærð og sá síðari 3,7 að stærð laust eftir klukkan tíu í gærkvöld.

Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni sagði í samtali við fréttastofu RÚV í gærkvöld að skjálftarnir, þótt nokkuð stórir séu, þurfi ekki að þýða neitt í sjálfu sér. 

„Síðasta árið hafa orðið sjö skjálftar í Bárðarbungu sem hafa náð því að vera 3 að stærð, sá stærsti 4,8“ segir Böðvar. Sá skjálfti varð þann 27. september 2020. 

„Það sem af er þessu ári hafa orðið 5 skjálftar sem eru 3 að stærð eða meira. í þessu felast ekki endilega tíðindi um væntanleg umbrot í Bárðarbungu, en við fylgjumst að sjálfsögðu vel með framvindu mála.“