Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yfir 20.000 eldingar yfir Skagerak og Suður-Noregi

27.07.2021 - 03:29
Erlent · Náttúra · Danmörk · Noregur · Evrópa · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Hans Høegh - NRK
Þúsundum eldinga laust niður í sunnanverðum Noregi og á Skagerak í kvöld þegar ógurlegt skrugguveður gekk þar yfir með hellirigningu í farteskinu. Um 4.000 heimili í Ögðum voru rafmagnslaus þegar mest var. Á vef norska ríkisútvarpsins NRK segir að í kvöld og nótt hafi um það bil 24.000 eldingar verið skráðar á og yfir Skagerak í Danmörku, Rogalandi, Ögðum og Austurlandi í Noregi og hafsvæðinu þar á milli, þótt þeim hafi ekki öllum slegið niður.

Þessu fylgdi slíkt steypiregn að gul veðurviðvörun vegna úrkomu var gefin út í Rogalandi og víðar.  Blíðskaparveður var á þessum slóðum um helgina og fram eftir mánudegi en það fékk skjótan, blautan og harkalegan endi þegar þrumuveðrið skall á síðdegis á mánudag.

Á vef NRK er haft eftir Nils Tore Augland, upplýsingafulltrúa Agder Energi, að rafmagn hafi farið af um 4.000 heimilum í Ögðum í óveðrinu þegar verst lét, um klukkan 23 að staðartíma, en flestir notendur hafa nú fengið rafmagn á ný. Slökkviliðið í héraðinu hefur líka haft í nógu að snúast við að bregðast við boðum frá sjálfvirkum brunavarnarkerfum sem eldingarnar hafa ræst, en engir eldsvoðar hafa þó hlotist af lofteldunum.

Þrumuveðrið er nú horfið á haf út en ennþá rignir töluvert og varað við hættulegum aðstæðum á nokkrum fjölförnum þjóðvegum vegna vatnsaga á malbikinu.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV