Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Svipt veiðileyfi vegna ítrekaðrar framhjálöndunar

Skjáskot/stillur úr umfjöllun Kveiks um brottkast og Fiskistofu
 Mynd: RÚV
Fiskiskipið Valþór GK-123 hefur verið svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni í fjórar vikur vegna ítrekaðrar framhjálöndunar. Veiðileyfissvipting gildir frá og með 24. ágúst til og með 20. september 2021.

Ákvörðun Fiskistofu þessa efnis er dagsett þann 20. júlí síðastliðinn. Í henni kemur fram að við löndun úr skipinu þann 28. apríl á þessu ári hafi hafnarstarfsmaður orðið þess var að 572 kíló af þorski voru flutt af löndunarstað án þess að aflinn hafi verið veginn á hafnarvog.

Landaður afli skal rakleitt á hafnarvog

Þetta kemur fram á vef Fiskistofu. Ákvörðunin byggir á því að með þessu hafi verið brotið gegn 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, en þar er mælt fyrir að allur afli fiskiskips skuli veginn á hafnarvog þegar við löndun og 1. mgr. 10. gr. sömu laga þar sem mælt er fyrir um að ekið skuli með landaðan afla rakleitt á hafnarvog.

Sama skip svipt leyfi fyrr í sumar

Viðurlög í málinu voru ákveðin með hliðsjón af ítrekunaráhrifum fyrri sviptingar á leyfi skipsins til veiða í atvinnuskyni vegna sambærilegs brots en skipið var einnig svipt leyfi til veiða í fjórar vikur fyrr í sumar vegna sambærilegs brots. Ítrekunaráhrifa vegna þeirrar sviptingar gætti ekki við ákvörðun viðurlaga í þessu máli þar sem ekki var komin ákvörðun um sviptingu á leyfi skipsins áður en hin ólögmæta háttsemi fór fram sem framangreind svipting tekur til, segir ennfremur á vef Fiskistofu.