Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stóraukin framlög til flokka og víða vænn kosningaforði

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Framlög ríkisins til stjórnmálaflokka hafa stóraukist á síðastliðnum árum. Sjálfstæðisflokkurinn er sá stjórnmálaflokkur sem stóð sterkast að vígi fjárhagslega í árslok 2019 og er líklega með besta kosningaforðann nú. Næstbest stóð Samfylkingin en minnst var í veski Sósíalistaflokksins. 

Þeir stjórnmálaflokkar sem hafa fengið að minnsta kosti einn mann kjörinn á þing, eða náð að lágmarki 2,5% atkvæða í kosningum, eiga rétt til framlaga úr ríkissjóði. Framlögin hafa hækkað svo um munar undanfarin ár, námu tæpum 300 milljónum árið 2016 en hlaupa nú á rúmum 700 milljónum. Allir flokkar lögðu árið 2018 fram tillögu um að hækka framlögin. Píratar og Flokkur fólksins voru einu flokkarnir sem ekki skrifuðu undir hana. 

Sjálfstæðisflokkurinn fær mest í krafti stærðar

Sú upphæð sem fellur í hlut hvers flokks ræðst af því hversu mörg atkvæði hann fékk í síðustu kosningum. Þannig fær stærsti flokkurinn þá, Sjálfstæðisflokkurinn, hæsta framlagið, tæpar 200 milljónir. Árið 2019 nam sú upphæð meira en fjórðungi heildarframlaga ríkisins til stjórnmálaflokka. Sjálfstæðisflokkinn munaði líka töluvert um framlög frá lögaðilum, 13,7 milljónir og einstaklingum 36 milljónir. Næst á eftir komu Vinstri græn með tæpar 140 milljónir frá ríkinu, þá Samfylking með 105 milljónir. Miðflokkurinn fékk 83,5 milljónir úr Ríkissjóði og 17 frá Alþingi. Svipað var uppi á teningnum hjá Framsóknarflokknum, 82 milljónir úr ríkissjóði og 11,6 til þingflokksins. Píratar fengu  86 milljónir í framlög, þar af tæpar 83 frá ríkissjóði og Alþingi, Viðreisn 72  milljónir og Flokkur fólksins 62. Sósíalistaflokkurinn fékk ekki framlag úr ríkissjóði en tekjur hans námu 6,2 milljónum árið 2019.  

Sjóðir stjórnarflokka misdigrir í árslok 2019

Nýjustu tölur um fjárhag flokkanna eru frá því í árslok 2019 og þeir hafa líklega safnað frekari kosningaforða í fyrra. Sjálfstæðisflokkurinn hafði úr mestu að moða, 106 milljónum, Vinstri græn, samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn, áttu 58 milljónir, Samfylkingin lúrði á 96 milljónum og Miðflokkur tæpum 80. Þriðji stjórnarflokkurinn, Framsókn, átti einungis 21 milljón, þrátt fyrir að fá drjúgan hlut af framlögum ríkisins. Píratar áttu tæpar fjörutíu milljónir, Viðreisn 21, Flokkur fólksins, sá flokkur sem nú auglýsir mest á samfélagsmiðlum átti 65 milljónir og Sósíalistaflokkurinn átti tæpar fjórar.  

Árétting:  Upphæðir framlaga ársins 2019 hafa verið uppfærðar. Í sjónvarpsútgáfu fréttarinnar sem fór í loftið á sunnudag var ekki gerður greinarmunur á heildarframlögum til flokkanna og framlögum úr ríkissjóði. Oft var lítill munur á þessum tveimur upphæðum en hjá sumum flokkum munaði töluvert um framlög sveitarfélaga, lögaðila og einstaklinga. Þetta leiðréttist hér með.