Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Starfsfólk LSH langþreytt og langar að vera í fríi

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Deildarstjóri covid-göngudeildarinnar segir að bregðast þurfi við langvarandi manneklu á spítalanum. Starfsfólk sem hafi verið kallað úr sumarfríi til að sinna fjórðu bylgjunni sé orðið langþreytt. Tveir covid smitaðir voru lagðir inn á spítalann í dag.

Sumarfríið var endasleppt hjá mörgum heilbrigðisstarfsmönnum eftir að smitum fór fjölgandi. Annað sumarið í röð hjá sumum, þar sem smitum fór að fjölga aftur eftir hlé á svipuðum tíma í fyrra. „Það kemur, það gerir það. En auðvitað er fólk orðið langþreytt og langar að vera að vera í fríi en það skynjar alveg hvernig ástandið er og kemur,“ segir Sólveig Hólmfríður Sverrisdóttir, deildarstjóri covid-göngudeildar. 

„Þetta kom svolítið aftan að okkur að allt þetta bólusetta fólk myndi smitast og verða pínu lasið líka, það er að koma aftan að okkur,“ bætir hún við.

Sólveig segir að komi fleiri bylgjur þurfi viðbrögðin að vera betur skipulögð. „Þetta geta ekki verið svona áhlaup. Við getum ekki verið í því allan næsta vetur til dæmis að þetta verði áhlaupsvinna aftur og aftur. Það mun held ég ekki ganga.“

Alvarleiki veikinda kemur í ljós eftir viku

Sem betur hafi bólusetningin komið í veg fyrir alvarleg veikindi, hingað til. Sólveig segir þó of snemmt að hrósa happi. Það taki fleiri daga fyrir einkennin að koma fram. „Það sem vonumst til og erum í rauninni að sjá að einhverju leyti er að fólk er ekki eins veikt og í hinum bylgjunum. En það kemur kannski ekki í ljós almennilega fyrr en eftir svona viku.“

Tveir voru lagðir inn í dag, þá eru fjórir inniliggjandi og um 750 í einangrun, sem eru öll í eftirliti hjá covid-göngudeildinni. Sólveig segir að með hverju afbrigði fylgi einkenni sem er meira áberandi en annað, núna er það magapína. „Við erum búin að skoða svona fimm til sex [sjúklinga] á dag undanfarið. Við fáum fólk til okkar, gefum því vökva og hresst það við. Svo kemur það aftur.“ Þannig er hægt að koma í veg fyrir spítalainnlagnir.

Þurfi að leysa langvarandi manneklu

Á föstudaginn fór spítalinn á hættustig, þá hafði smitum farið fjölgandi í tæpa viku og tveir voru inniliggjandi. Þetta var gert meðal annars, vegna mönnunarvandræða, margir voru í sóttkví og sumarfríi og óvissa um þróun faraldursins.

„Það er búið að vera langvarandi mannekla á spítalanum. Og Það er hlutur sem þarf virkilega að horfa á, ekki bara stjórnendur spítalans, heldur ríkisvaldið verður að fara að finna út hvernig er hægt að reka þennan spítala til að hægt verði lifa við þetta vinnuálag.“

Við ræddum þetta einmitt við heilbrigðisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag og spurðum hana hvað henni fyndist það segja um stöðu spítalans að grípa þurfi strax til hættustigs á spítalanum?  „Þetta segir fyrst og fremst um stöðu covid. En það er sannarlega þannig að við getum ekki litið á þetta verkefni sem áhlaupsverkefni eða átaksverkefni. Við þurfum að huga að því hvernig við styrkjum heilbrigðiskerfið varanlega svo því sé ekki of þunnt smurt og verði brothætt undir þessum kringumstæðum,“ segir Svandís.

Þér finnst ekki vísbending um stöðu spítalans eða vanmátt hans á þessum tíma að þau hafi farið strax á hættustig? „Ég held þetta sé bara raunsæi. Farsóttarnefndin er að fara yfir stöðuna. Við vitum alveg hver vandi íslenskrar heilbrigðisþjónustu er, það snýst um mönnun og ýmsa innviði þjónustunnar. Við höfum verið að bæta í fjármagn á undanförnum árum. En það var gengið mjög nærri heilbrigðisþjónustunni eftir hrunið,“ bætir hún við.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV