Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Söguleg gullverðlaun Floru Duffy frá Bermúda

epa09368441 Flora Duffy of the Bermudas celebrates after winning the Women's Individual Triathlon race of the Tokyo 2020 Olympic Games at the Odaiba Marine Park in Tokyo, Japan, 27 July 2021.  EPA-EFE/WU HONG
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Söguleg gullverðlaun Floru Duffy frá Bermúda

27.07.2021 - 00:41
Þríþrautarkonan Flora Duffy frá Bermúda varð Ólympíumeistari í þríþraut kvenna í kvöld. Ekki nóg með að hafa náð í sín fyrstu Ólympíuverðlaun heldur voru gullverðlaun Duffy fyrstu gullverðlaun Bermúda í sögu Ólympíuleikanna.

Dagurinn byrjaði ekki vel í Tókýó en 15 mínútna seinkun varð á ræsingu þar sem veðuraðstæður voru slæmar. Á endanum var þó ræst í rigningu og talsverðu roki. Fljótlega teygðist á hópnum og þegar keppendur höfðu synt 1500 metra voru sjö konur orðnar afgerandi fremstar. Þá tóku við 40 kílómetrar á hjóli um götur Tókýó sem voru, veðri samkvæmt, blautar og erfiðar við að eiga. 

Þegar komið var að því að skipta í síðasta sinn og hefja 10 kílómetra hlaup voru það Duffy, Bandaríkjakonan Katie Zaferes og hin breska Georgia Taylor-Brown sem virtust eiga mest eftir á tankinum. Duffy bar af og kom á endanum í mark 1 mínútu og 15 sekúndum á undan Taylor-Brown sem sótti silfur en Zaferes þurfti að sætta sig við brons. 

Þetta eru aðeins önnur Ólympíuverðlaun smáeyjunnar Bermúda og fyrstu gullverðlaunin. Síðustu verðlaun voru bronsverðlaun og komu árið 1976, fyrir 45 árum síðan. Á Bermúda búa um 63 þúsund íbúar og landið var fyrir sigur Duffy það fámennasta til að vinna til verðlauna á sumarólympíuleikum. Með gullverðlaununum varð Bermúda því fámennasta land sögunnar til að eiga Ólympíumeistara á sumarleikum en Liechtenstein hefur tvisvar unnið til gullverðlauna á vetrarólympíuleikum.