Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Leiðtogar Norður- og Suður-Kóreu ræðast við að nýju

27.07.2021 - 05:52
epaselect epa07033535 South Korean president Moon Jae-in (L) presents a medallion to North Korean leader Kim Jong-un (R) during their meeting an Okryugwan restaurant in Pyongyang, North Korea, 19 September 2018 (issued 20 September 2018). The third Inter
Moon og Kim í Pjongjang 2018 Mynd: EPA-EFE - PYONGYANG PRESS CORPS POOL
Stjórnvöld í Norður- og Suður-Kóreu greindu frá því í morgun að ríkin hefðu tekið upp samskipti að nýju, rúmu ári eftir að Norður-Kóreumenn lokuðu á allar opinberar samskiptaleiðir milli ríkjanna. Í tilkynningu frá forsetaskrifstofu Suður-Kóreu segir að leiðtogarnir hafi átt í bréfasamskiptum síðan í vor, sem leiddu til þessarar niðurstöðu.

Formlega eiga Kóreuríkin tvö enn í stríði sem hófst árið 1950 og þótt vopnahlé hafi ríkt frá 1953 andar oftar en ekki köldu á milli Pjongjang og Seúl. 2018 batnaði sambúðin til muna. Þeir Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Moon Jae-In, nýkjörinn forseti Suður-Kóreu, hittust í þrígang, bein lína milli stjórnvalda og yfirherstjórna ríkjanna var opnuð að nýju og leiðtogarnir sammæltust um að binda formlega enda á stríðið innan árs.

Þíðan entist þó ekki og samband ríkjanna fór versnandi á ný uns Norður-Kórea rauf öll opinber samskipti við Suður-Kóreu í júní í fyrra, eftir að aðgerðasinnar dreifðu áróðurspésum gegn stjórnvöldum í Pjongjang norðan landamæranna. 

Óvæntur viðsnúningur

Í morgun barst svo óvænt tilkynning, án nokkurs opinbers aðdraganda, um að allar samskiptalínur hefðu verið opnaðar að nýju, samkvæmt samkomulagi leiðtoga ríkjanna tveggja. Í tilkynningu frá skrifstofu Moons segir að þeir Kim hafi skipst á bréfum síðan í apríl, með það fyrir augum að bæta samband ríkjanna. Opnun beinu línanna væri fyrsta skrefið í þá átt.

„Leiðtogarnir sammæltust líka um að endurskapa traust á milli Kóreuríkjanna eins fljótt og auðið er og halda áfram að bæta samband þeirra," segir í yfirlýsingunni.

Moon áfram um að bæta samskiptin og draga úr spennu

Sumarið 2018 hittust þeir Kim og Donald Trump, Bandaríkjaforseti á leiðtogafundi í Singapúr. Var þetta í fyrsta skipti sem sitjandi Bandaríkjaforseti og leiðtogi Norður-Kóreu hafa sest að milliliðalausum viðræðum, og er almennt talið að Moon hafi verið maðurinn á bak við þann fund.

Þeir Kim og Trump hittust svo öðru sinni í Hanoi í ársbyrjun 2019. Sá fundur varð þó styttri en til stóð og endaði án nokkurs samkomulags. Kenndu báðir leiðtogar hinum um að viðræðurnar fóru út um þúfur. Samskipti Kóreuríkjanna minnkuðu og versnuðu stöðugt eftir það, allt þar til þau voru rofin í júní í fyrra.