Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heilu rúturnar skila af sér ferðamönnum í sýnatöku

Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson / RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
„Það er alveg stöðugt streymi fólks sem að hlykkjast hérna í næstu götur,“ segir Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Mikil ásókn er í að komast í sýnatöku á Suðurlandsbraut og er búist við álíka fjölda og í gær þegar um 4.300 manns mættu.

„Í gær vorum við með um 4.300 bæði í hraðapróf og PCR próf sem er bæði ferðamannasýni og einkenna- og sóttkvíarsýni,“ segir Ingibjörg en mikið er um erlenda ferðamenn sem eru að næla sér í vottorð áður en haldið er heim á leið. Eru dæmi um að heilu rúturnar skili af sér ferðamönnum í sýnatöku líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi. Ingibjörg segir einnig marga Íslendinga á faraldsfæti og þeir þurfi einnig að ná sér í vottorð áður en haldið er út. „Þannig að það er bara líf og fjör.“

Skimað er til klukkan 16 í dag. Mikið álag er á starfsfólki en Ingibjörg segir starfsfólkið öllu vant. „Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við fáum svona gusur þannig að það er bara að vinna þetta niður hægt og rólega. Við erum að bæta við fólki hjá okkur þannig að þetta gengur bara ágætlega.“