Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bilun í öðrum sæstrengnum sem tengir Ísland við Evrópu

27.07.2021 - 10:59
Mynd með færslu
The existing two cables. Mynd:
Bilun átti sér stað í ljósleiðaranum FARICE-1 á hádegi í gær en hann er annar af tveimur fjarskiptasæstrengjum sem tengja Ísland við Evrópu. Ljósleiðarinn liggur frá Seyðisfirði til Skotlands en allt samband lá niðri á milli klukkan 13:00 og 05:00. FARICE-1 var lagður árið 2003 en hættan á bilunum eykst eftir því sem sæstrengirnir eldast. Örugg tenging er þá gríðarlega mikilvæg, til dæmis fyrir alla þá þjónustu sem reiðir sig á stafrænar lausnir.

Verið er að vinna að greiningu á biluninni og undirbúningi að viðgerð. Í tilkynningu frá Farice kemur fram að ekki sé hægt að segja til um hvenær viðgerð ljúki að svo stöddu. En þar sem að strengirnir eru tveir er gert ráð fyrir því að annar strengurinn geti bilað án þess að skerða fjarskiptasamband hérlendis um of. 

Af öryggisástæðum og til þess að tryggja gagnaflutningsgetu er talið æskilegt að hafa þrjá tengipunkta við Evrópu. Nú er þriðji strengurinn, ÍRIS, í undirbúningi og gert er ráð fyrir að ljúka þeirri vinnu fyrir árslok 2022. Það mun þá auka fjarskiptaöryggi Íslands frekar.