Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Aukið álag á Keflavíkurflugvelli út af nýju reglunum

27.07.2021 - 21:46
Mynd: Hjalti Þórarinsson / RÚV
Langar raðir mynduðust á Keflavíkurflugvelli eftir að nýjar landamærareglur tóku gildi á miðnætti. Erlendir ferðamenn sem ekki framvísa viðeigandi vottorði við komuna til landsins geta átt yfir höfði sér sekt, eða að vera vísað frá landi.

Samkvæmt nýju reglunum þurfa allir sem koma til landsins að framvísa ekki eldra en 72ja klukkustunda gömlu neikvæðu Covid-prófi, hvort sem þeir eru bólusettir eða ekki. Mikill erill var á Keflavíkurflugvelli í morgun vegna þessa og aftur síðdegis.

„Þetta kannski hægir aðeins á ferlinu hjá okkur þessar nýju reglur en við erum með vel þjálfað og vant fólk hérna í vinnu og við þekkjum þessi vottorð þannig að það hjálpar okkur mikið til við að halda uppi afgreiðsluhraða hérna,“ segir Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í flugstöðvardeild Lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Þeir sem ekki vísa fram vottorði við komuna til landsins geta átt yfir höfði sér sekt. Viðkomandi flugfélag ber ábyrgð á að enginn fari um borð án vottorðs, og getur átt von á stjórnvaldssekt frá Samgöngustofu. Arngrímur segir að dagurinn hafi gengið vandkvæðalaust fyrir sig.

Fjölmörgum erlendum ferðamönnum verið vísað frá í faraldrinum

Erlendir ferðamenn sem ekki eru með vottorð eiga á hættu að vera vísað frá landi. „Við skoðum hvert mál fyrir sig og það skiptir máli hvaðan úr heiminum viðkomandi kemur. Þannig að já það getur mögulega gerst,“ segir Arngrímur.

En hefur slíkt komið upp? „Já, frá byrjun covid þá hefur talsvert af fólki verið frávísað hérna, erlendis frá, sem hefur ekki uppfyllt þær kröfur sem eru gerðar af íslenskum stjórnvöldum við komu hérna til landsins, þannig að það hefur verið talsverður fjöldi já,“ segir Arngrímur.

Aftur á móti er þeim sem búa á Íslandi aldrei vísað frá, þó að þeir framvísi ekki gildu vottorði, og ekki er hægt að skikka þá í sýnatöku.

Allir komufarþegar sem hér búa eru hvattir til að fara í sýnatöku, og þeir geta gert það strax á flugvellinum. „Og eins að sjálfsögðu ef að það koma einhverjir hingað sem hafa ekki náð að sækja sér PCR-próf eða hraðpróf erlendis, þá hvetjum við þá líka til að fara í sýnatöku hérna,“ segir Arngrímur.

 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV