Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Anton Sveinn: „Gífurleg vonbrigði og mjög sárt“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Anton Sveinn: „Gífurleg vonbrigði og mjög sárt“

27.07.2021 - 12:32
Anton Sveinn McKee var töluvert frá sínu besta í undanrásum í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun. Hann komst ekki áfram og er því úr leik á leikunum.

Anton Sveinn synti í öðrum riðli af fimm og var á fjórðu braut. Hann kom annar í mark í sínum riðli á synti á 2:11,64. Hann varð 24 í heildina en 16 efstu keppendur komust áfram í undanúrslit. „Þetta er ekki alveg það sem ég var að vonast eftir en það er ekkert annað að gera en að taka því og finna eitthvað jákvætt til að taka út úr þessu til þess að taka áfram. Maður var búinn að æfa að þessu, og því gífurleg vonbrigði og mjög sárt en maður verður bara að halda áfram,“ sagði Anton strax að sundi loknu.

Bjóst sjálfur við mun betri tíma á meðan sundinu stóð

Það kom honum þó á óvart að tíminn hafi verið svo langt frá því sem hann ætlaði sér. „Mér fannst mér þannig séð líða mjög vel. Þannig þegar ég sá tímann þá var ég smá hissa miðað við hvernig mér leið í vatninu. Ég bjóst við töluvert betri tíma þannig þetta kom mér mjög á óvart,“ segir hann. „Ég var að búast við sjálfur núna að vera í kringum 2,8 sem væri öruggt áfram þannig að það vantaði eitthvað upp á í dag. Það er náttúrulega ömurlegt að æfa endalaust í gegnum covid og allt þetta rugl koma hingað og ekki standa sig en maður verður bara að bíta í það súra.“

Hann segir að þrátt fyrir vonbrigðin sé hann langt frá því að vera hættur. „Þetta er ennþá það skemmtilegasta sem ég geri þó það sé hundleiðinlegt að ganga illa þannig að eins og ég segi, munum við bara komast að því.“

Þannig þetta eru ekki þínir síðustu Ólympíuleikar?
„Alla vega ekki eins og planið er núna, þá sjáumst við í París,“ sagði Anton að lokum.

Viðtalið við Anton Svein í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Sund

Anton Sveinn úr leik í Tókýó