Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

123 smit í gær — Mesti fjöldi frá upphafi faraldursins

27.07.2021 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Nú liggur endanlegur fjöldi innanlandssmita gærdagsins fyrir en 123 innanlandssmit greindust í gær og tvö á landamærum. Aldrei hafa fleiri greinst með COVID-19 á einum degi á Íslandi. Fjöldi smitaðra sem gefinn var upp í morgun var ekki endanlegur því ekki var búið að ljúka við greiningu sýna. Tölurnar hafa nú verið uppfærðar.

Nú eru 745 manns í einangrun hér á landi og 2.030 í sóttkví. Þá eru 1.011 manns í skimunarsóttkví. Þrír eru á sjúkrahúsi vegna COVID-19. Þetta kemur fram á covid.is. Ef skoðuð er dreifing þeirra sem nú eru í einangrun eða í sóttkví á landinu má sjá að smit hafa komið upp í öllum landshlutum. Flestir þeirra sem eru í einangrun, eða 539 af 745, eru á höfuðborgarsvæðinu. 

Af þeim 123 sem greindust í gær voru 88 utan sóttkvíar.  Meirihlutinn var fullbólusettur eða 84 manns.