Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tvö lík fundin á K2

26.07.2021 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: Chhang Dawa sjerpi - RÚV
Fjallgönguvefurinn Explorers Web greindi frá því í dag að tvö lík hefðu fundist á fjallinu K2. Annað þeirra er af Ali Sadpara. Ekki er staðfest af hverjum hitt líkið er en göngumenn sem fundu líkin telja að það sé af John Snorra Sigurjónssyni. John Snorri og Sadpara létust báðir í byrjun febrúar ásamt Juan Pablo Mohr þegar þeir freistuðu þess að komast á tind K2. Þeir voru lýstir látnir nokkru eftir að hafa horfið á fjallinu.

Fyrra líkið fannst um 400 metra fyrir ofan búðir 4 á leið göngumanna á tind fjallsins. Göngumenn á leið á tindinn fundu líkamsleifar göngumanns sem klæddur var í gul og svört klæði. Bæði John Snorri Sigurjónsson og Juan Pablo Mohr voru þannig klæddir á leið sinni upp fjallið. Skömmu síðar fannst annað lík. 

Staðfest er að seinna líkið sem fannst sé af Ali Sadpara, að því er fram kemur á Explorers Web. Erfiðara er að bera kennsl á seinna líkið þar sem það snýr niður og er hulið ís. Göngumenn telja þó að þar sé að finna líkamsleifar Johns Snorra. Þetta hefur þó ekki verið staðfest.