Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þjóðhátíð 2021 frestað

26.07.2021 - 20:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hörður Orri Grettisson, formaður Þjóðhátíðarnefndar ÍBV, sendi rétt í þessu frá sér tilkynningu þess efnis að Þjóðhátíð 2021 væri frestað. Ekki er þó enn útséð um að hún verði haldin síðar í sumar eða haust.

 

Hörður Orri segir það eftir sem áður trú Þjóðhátíðarnefndar að hægt verði að halda hátíðina í einhverri mynd síðar í sumar. Ákvörðun um það muni liggja fyrir í síðasta lagi 14. ágúst.

Endurgreiðsla miða í fullum gangi

Vinna við endurgreiðslukerfi er í fullum gangi, að því er segir í tilkynningunni,  og verður kynnt þegar endurgreiðslur hefjast í upphafi ágústmánaðar. Miðahafar standa frammi fyrir þremur kostum; a) Að fá miðann endurgreiddan, b) að styrkja ÍBV um andvirði miðans, og c) að flytja miðann yfir á Þjóðhátíð 2022.

Brekkusöngurinn verður í streymi

Fyrirhuguð dagskrá sunnudagskvöldsins mun fara fram sem streymisviðburður sunnudaginn 1. ágúst. Hljómsveitin Albatross mun stjórna skemmtuninni ásamt einvalaliði söngvara áður en Magnús Kjartan Eyjólfsson stýrir svo hinum eina sanna Brekkusöng sem allir geta tekið þátt í hvar sem þeir eru í heiminum.