Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Skrítin tilfinning“ að synda á ÓL í fyrsta sinn

Mynd: SSÍ / SSÍ

„Skrítin tilfinning“ að synda á ÓL í fyrsta sinn

26.07.2021 - 13:34
Snæfríður Sól Jórunnardóttir bætti Íslandsmetið í 200 metra skriðsundi í frumraun sinni á Ólympíuleikunum í morgun. Hún segist ánægð með bætinguna og vonast til að mæta afslappaðri í 100 metra skriðsundið á miðvikudag.

Þetta eru fyrstu Ólympíuleikar Snæfríðar Sólar. Hvernig var tilfinningin að stinga sér til sunds í morgun? „Svolítið skrítið en þetta tókst alveg vel. Ég var kannski aðeins of „safe“ til að byrja með útaf því að ég var kannski svolítið hrædd. En þetta var alveg mjög fínt, bæting er góð,“ sagði Snæfríður að loknu sundinu.

Hún bætti Íslandsmet sitt í greininni um 30/100 þegar hún synti á 2:00,20. „Ég er ánægð með það. Ég var að reyna að loka sundinu vel, að síðustu 50 metrarnir væru góðir svo það tókst.“

Snæfríður synti með heimsmethafanum í greininni, hinni ítölsku Federica Pellegrini, í undanrásum. „Þetta er alveg spennandi að keppa á móti þeim bestu en ég var bara að reyna að synda mitt eigið, ekki vera að horfa of mikið til hliðar og vera stressuð,“ segir Snæfríður.

Snæfríður keppir næst í undanrásum 100 metra skriðsundsins á miðvikudaginn. Hún telur að hún verði afslappaðri fyrir það sund. „Já, 200 metrarnir eru mitt aðalsund, þannig ég verð bara að reyna að hafa gaman að synda 100 líka, njóta þess,“ sagði Snæfríður að lokum.

Viðtalið við Snæfríði má sjá í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Sund

Snæfríður Sól bætti Íslandsmetið