Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Persónuvernd fær mörg erindi tengd myndbandsupptökum

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Reglur um myndbandsupptökur eru skýrar að mati Persónuverndar en talsvert skortir á að fólk geri sér grein fyrir hverjar þær eru. Fjölmörg erindi og kvartanir berast vikulega til Persónuverndar vegna þessa.

Nýlegt dæmi er um sekt vegna myndbandsupptöku í starfsmannarými og lögregla skoðar nú hvort saknæmt athæfi hafi átt sér stað á Rey cup mótinu. Kveikt var á eftirlitsmyndavélum í rými sem stúlkur á táningsaldri gistu í vegna mótsins. Ekki var um venjulegt gistirými að ræða.

Í upplýsingum frá Persónuvernd kemur fram að uppfylla þarf ákveðin skilyrði til að rafræn vöktun sé heimil á vinnustöðum eða utandyra.

Tilgangur vöktunar verður að vera skýr, málefnalegur og lögmætur - til dæmis að koma í veg fyrir þjófnað eða að tryggja öryggi manna og eigna.

Gæta þarf meðalhófs og ekki má ganga lengra en þörf krefur til að forðast óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra sem sæta vöktuninni.

Nauðsyn er að fræða þá sem eru á vöktuðum svæðum, til dæmis starfsmenn eða nemendur, um vöktunina. Einnig skal gera viðvart um vöktun með merki eða á annan máta.

Vöktun sem fer fram til að mæla vinnu og afköst starfsmanna er háð ströngum skilyrðum.

Myndefni skal aðeins skoða ef sérstakt tilefni er til þess og aðeins þeir sem hafa til þess heimild.

Ekki skal geyma myndefni lengur en í níutíu daga nema í sérstökum tilvikum.

Þegar eftirlitsmyndavélar eru nettengdar þarf að tryggja að óviðkomandi hafi ekki aðgang að myndefninu.

Opinber birting á myndefni, á netinu til dæmis, er óheimil nema með samþykki þeirra sem eru á upptökunni. Alltaf má þó afhenda lögreglu myndefni.

Sá sem er vaktaður hefur rétt til að skoða gögnin, upptökur til dæmis sem verða til um hann, nema hagsmunir annarra vegi þyngra.

Rafræn vöktun með leynd er bönnuð nema að hún styðjist við lög eða úrskurð dómara.

Helga Sigríður Þórhallsdóttir, sviðsstjóri hjá Persónuvernd segir bæði fyrirspurnir og kvartanir vegna rafrænnar vöktunar berast vikulega þar sem fólk hafi kannski ekki áttað sig á því að það þurfi að fylgja ákveðnum reglum og þurfi að gæta þess að þær séu uppfylltar áður en myndavélarnar eru settar upp.

Persónuvernd tjáir sig ekki um einstök mál. Nýlegasta dæmi um myndatöku sem gerðar hafa verið athugasemdir við til lögreglu er frá Rey cup mótinu. Stjórn knattspyrnumótsins Rey Cup hefur harmað að gleymst hafi að slökkva á eftirlitsmyndavélum, sem voru í gistiaðstöðu stúlkna á táningsaldri sem gistu í Laugardalshöll vegna mótsins.

Greint var frá því að stúlkur í þriðja og fjórða flokki Selfoss hefðu uppgötvað að kveikt hefði verið á eftirlitsmyndavélunum. Í sameiginlegri yfirlýsingu stjórnar Rey Cup og knattspyrnudeildar Selfoss segir að slökkt hafi verið á þeim þegar í stað eftir að málið hafi komið upp. Segir enn fremur að ekkert bendi til þess að um ásetning hafi verið að ræða, heldur gáleysi og hefur stjórnin beðist afsökunar á því.

 

Ólöf Rún Skúladóttir