Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fylkismenn burstaðir í Vesturbænum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Fylkismenn burstaðir í Vesturbænum

26.07.2021 - 21:12
Síðasti leikurinn í 14. umferð Pepsi Max deild karla fór fram í Vesturbænum í kvöld þar sem KR-ingar mættu Fylki. KR-ingar tryggðu sér stigin þrjú eftir góðan 4-0 sigur.

Fyrir leikinn sat KR í 5. sæti deildarinnar en Fylkismenn voru í því 9., fjórum stigum frá fallsæti. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 9. mínútu þegar Atli Sigurjónsson afgreiddi boltann snyrtilega í netið og Óskar Örn Hauksson tvöfaldaði forystu KR-inga fyrir lok fyrri hálfleiks. 

Á 56. mínútu skoraði Kristján Flóki Finnbogason þriðja mark Vesturbæinga eftir fyrirgjöf frá Stefáni Árna Geirssyni. Fjórða og síðasta mark leiksins kom svo á 78. mínútu þegar Ægir Jarl Jónasson kom KR í 4-0. Með sigrinum eru KR-ingar komnir upp í 3. sæti deildarinnar með 25 stig, tveimur stigum meira en Breiðablik sem á þó leik til góða.