Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flóð og flóðaviðvaranir í Lundúnum, S-Englandi og Wales

26.07.2021 - 00:43
Erlent · Náttúra · Bretland · England · Flóð · Lundúnir · Wales · Evrópa · Veður
A man walks in bare feet through flood water in Horse Guards Road in central London,  Sunday July 25, 2021. Thunderstorms bringing lightning and torrential rain to the south are set to continue until Monday it is forecast. (Victoria Jones/PA via AP)
 Mynd: AP
Flætt hefur um götur og neðanjarðarlestarstöðvar í Lundúnum og flóðaviðvaranir voru gefnar út víða á sunnanverðu Englandi og Wales í gær. Mikið vatns- og þrumuveður gekk yfir Suður-England og Wales á sunnudag. Svo mikil var úrkoman að asaflóð urðu á nokkrum stöðum í höfuðborginni Lundúnum sem stöðvuðu alla bílaumferð þar sem þau voru mest. Einnig raskaðist umferð neðanjarðarlesta á nokkrum línum, þar sem vatn fossaði niður í stöðvar og göng.

BBC hefur eftir slökkviliðinu í borginni að því hafi borist yfir 300 beiðnir um aðstoð á þeim klukkustundum sem flóðin stóðu sem hæst, einkum vegna gatna sem fóru á kaf og kjallara sem fylltust af vatni. Gefnar voru út fimm alvarlegar viðvaranir á rigningarsvæðunum vegna mikillar flóðahættu og á nítján stöðum til viðbótar var fólki ráðlagt að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana og vera við öllu búið vegna úrhellisins.

 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV