Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ferðareglur erlendis geta breyst mjög hratt

26.07.2021 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Fyrirspurnum til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins vegna ferðalaga Íslendinga til útlanda hefur fjölgað undanfarna daga eftir að Covid smitum fjölgaði. 

Fyrirspurnum hefur fjölgað

„Það hefur verið svolítil aukning á fyrirspurnum frá Íslendingum sem eru að ferðast erlendis" segir Áslaug Karen Jóhannesdóttir staðgengill upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins. . „Þær snúast um hvaða takmarkanir eru í gildi  í þeim ríkjum sem á að ferðast til og einnig líka hvað muni gerast ef Ísland lendir á rauðum lista. Það er mismunandi eftir ríkjum en við vísum fólki alltaf á vefsíðuna okkar utn.is/ferdarad, en þar er að finna lista yfir ríki og gildandi sóttvarnarreglur í þessum ríkjum. Sendiráðin eru mjög dugleg að uppfæra listana jafnóðum og þeir breytast".

Snúið að smitast erlendis

Í hvers konar vandræðum lendir fólk?

„Ef þú t.d. greinist jákvæður í sýnatöku erlendis þá gætirðu þurft að taka út einangrun úti af því að flugfélög hleypa ekki smituðum einstaklingum um borð".

Reglurnar breytast hratt

Er ráðlegt að ferðast?

„Það eru auðvitað enn þá í gildi tilmæli frá sóttvarnalækni um að vera ekki að ferðast á áhættusvæði, sem að eru í dag öll ríki nema Grænland. Við ráðleggjum fólki að kynna sér sjálft mjög vel hvaða reglur og  takmarkanir séu í gildi í ríki sem þú ætlar að ferðast til eða í gegnum. Og hafa í huga að reglurnar geta breyst mjög hratt. Og að vera með áætlun um hvað hægt sé að gera ef einhver greinist smitaður" segir Áslaug Karen Jóhannesdóttir staðgengill upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins. 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV