Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eðlilegt að skima bólusetta á landamærunum

Kristjana Ásbjörnsdóttir, lektor í faraldsfræði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands
 Mynd: Hulda G. Geirsdóttir - RÚV
Lektor í faraldsfræði segist binda vonir við að útbreidd bólusetning hér á landi komi í veg fyrir mjög alvarleg veikindi vegna Covid-19. Skoða þurfi hvort taka eigi aftur upp skimanir á bólusettum einstaklingum við landamærin.

Kristjana Ásbjörnsdóttir, lektor í faraldsfræði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, segir rannsóknir á virkni bóluefna gefa misvísandi niðurstöður. Þannig sýni nýleg rannsókn að tvær sprautur af Pfizer og Astra Zeneca veiti góða vörn gegn smitum en tölur frá Ísrael gefi öfuga niðurstöðu.

Binda enn vonir við virkni bóluefna

Báðar rannsóknir sýni hins vegar að bóluefnin gefi góða vörn gegn alvarlegum veikindum og bendir hún í því samhengi á að 99,2 prósent þeirra sem létu lífið af völdum Covid-19 í Bandaríkjunum í júní hafi verið óbólusett. „Þó að við verðum fyrir vonbrigðum að það safnist upp þessi stóri fjöldi nýrra smita, þá bindum við öll vonir við það að við eigum ekki eftir að sjá aukningu á spítalainnlögnum eftir tvær til þrjár vikur sem að hefur fylgt fyrri bylgjum,“ segir Kristjana sem var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Eðlilegt að taka upp skimanir á ný

Kristjana segir að líklega sé lærdómurinn af afléttingum takmarkana í byrjun júlí að verja þurfi landamærin eins og kostur er. „Mögulega hefðum við átt að halda okkur við að skima bólusett fólk á landamærunum. Ég held að það sé komið fram að það er miklu meira um smit sem berast með bólusettum einstaklingum heldur en við kannski gerðum ráð fyrir og mér finnst mjög eðlilegt að skoða það aftur.“

Magnús Geir Eyjólfsson