Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Barnshafandi konur hvattar til að þiggja bólusetningu

26.07.2021 - 19:00
Barnshafandi konur hér á landi verða hvattar til að þiggja bólusetningu við COVID-19 í breyttum leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda. Yfirlæknir fæðingarþjónustu Landspítalans segir ekkert benda til þess að bóluefnið sé skaðlegt á meðgöngu. 

Hingað til hefur ekki verið mælt með því hér á landi að barnshafandi konur þiggi bólusetningu við COVID-19, nema þær séu í sérstökum áhættuhópi. 

„Á tímabilum var náttúrulega mjög lítið um smit í samfélaginu og þá vorum við kannski varkárari. En ég held að það sé alveg sjálfsagt fyrir ófrískar konur að þiggja bólusetningu. Við höfum aldrei mælt beinlínis gegn því þótt við höfum ekki mælt með því en þær leiðbeiningar sem eru í undirbúningi, um endurskoðun, þar munum við mæla með því að konur sem eru þungaðar fái bólusetningu,“ segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarþjónustu Landspítalans. Ekkert bendi til þess að bóluefnið sé skaðlegt á meðgöngu en mælt verði með því að bíða fram yfir fyrstu tólf vikurnar.

Síðustu mánuði hafa heilbrigðisyfirvöld víða um heim hvatt barnshafandi konur til að þiggja bólusetningu. En hvers vegna á fyrst núna að mæla með því á Íslandi?

„Við höfum kannski verið hikandi vegna þess að almennt er mælt með að það sé varkárni gætt hjá ófrískum konum þegar takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir. En ef maður tekur mið af bóluefnum almennt, sérstaklega þegar um er að ræða ekki lifandi bóluefni eru engin gögn sem sýna fram á að þau séu skaðleg fyrir fóstur.“

Hulda hvetur konur sem eiga von á sér á allra næstu dögum að forðast mannamót. Frá því fjórða bylgja faraldursins hófst hafa fleiri en ein smituð kona fætt barn á Landspítalanum. 

„Starfsfólkið auðvitað þarf að fara í viðeigandi hlífðarbúnað og það er takmarkaðri umgengi og allir sem koma að fæðingunni þurfa að gæta þessarar varúðar. Og eins eftir fæðinguna getur verið erfiðara að koma við heimaþjónustu,“ segir Hulda.