Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Allir geta verið vísindamenn í einn dag

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV/Landinn
Sunnudaginn 25. júlí fer fram talning á selum á Vatnsnesi. Almenningur er hvattur til að skrá sig sem sjálfboðaliða - ganga um fjörur og telja seli. Framkvæmdastjóri selaseturs segir niðurstöðurnar sem fáist gagnast næstu áratugi.

 

Selarannsóknir á Hvammstanga

Á Hvammstanga er starfrækt Selasetur Íslands en hlutverk þess er að standa fyrir rannsóknum á selum og náttúrutengdri ferðaþjónustu. Selasetrið stendur fyrir Selatalningunni miklu þar sem selir svæðisins verða taldir, en stofninn hefur farið minnkandi síðasta áratuginn.

Páll Sigurðsson, framkvæmdastjóri Selaseturs, segir að talningin er viðburður hjá rannsóknarhluta Selaseturs. „Við byrjuðum fyrst á þessu 2007 og höfum gert þetta í 11 skipti. Það eru 5 ár frá því við gerðum þetta síðast og nú ætlum við að taka upp þráðinn og athuga hvort einhverjar breytingar hafa orðið á stofni selsins á Heggstaðanesi og Vatnsnesi. Markmiðið er að styðja við frekari rannsóknir með því að afla þekkingar um fjölda sela á þessum slóðum,“ segir Páll.

Vantar sjálfboðaliða

Þetta er stórt svæði sem þarf að ganga um og telja seli og því hefur verið óskað eftir sjálfboðaliðum og vantar enn fleiri. Strandlengjan sem talið er á er rúmir 100 km. Hver og einn getur talið á svæði sem er frá tveimur til tíu kílómetrar.

„Hluti af þessu líka er að þróa sjálfbæra ferðamennsku í skoðun villtra dýra. Við höfum þróað hegðunarviðmið fyrir ferðamenn hvernig þeir nálgast dýrin,“ segir Páll. Áður en að sjálfboðaliðarnir leggja af stað í talningu fá þeir kynningu á verkefninu og leiðbeiningar hvernig skuli haga sér í kringum dýrin.
 

Mikilvægt vísindastarf

Páll hvetur fólk til að koma og taka þátt því upplýsingarnar sem fást úr talningunni gagnast vísindamönnum næstu áratugina.

Páll segir að allir sem geta labbað og treysta sér til séu boðnir velkomnir á Hvammstanga til að taka þátt í talningunni á Vatnsnesinu. „Það geta allir orðnir vísindamenn í einn dag eins og við hugsum þetta,“ segir Páll.