Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vill grímuskyldu í verslunum til að forðast rugling

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtök verslunar og þjónustu munu óska eftir því við heilbrigðisráðherra að almennri grímuskyldu verði komið á í verslunum. Nokkurs ruglings hefur gætt um það hvort grímuskylda gildi þar eða ekki, enda þykir ný reglugerð heilbrigðisráðherra ruglandi að þessu leyti.

Andrés Magnússon, framkvæmastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að ekki sé hægt að setja verslunareigendur og starfsfólk í þá stöðu að þurfa að meta hvort „hægt sé að tryggja eins metra reglu“ eða húsnæði sé vel eða illa loftræst.

Grímur snúa aftur

Samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti í gærkvöldi. Þar er kveðið á um grímuskyldu við viss tilefni og segir þar meðal annars:

Andlitsgrímur skal nota þar sem húsnæði er illa loftræst eða ekki er unnt að tryggja nálægðartakmörkun, svo sem í heilbrigðisþjónustu, verslunum, söfnum, [...]

Þetta hefur verið túlkað á tvenna vegu. Annars vegar að grímuskyldan gildi ekki almennt í verslunum heldur aðeins í þeim tilvikum sem ekki er hægt að tryggja eins metra regluna. 

Hins vegar að að heilbrigðisþjónusta, verslanir, söfn o.fl. séu dæmi um staði þar sem aldrei er hægt að tryggja eins metra reglu og því beri að nota grímu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra virtist leggja síðari skilninginn í reglugerðina, því á Twitter svaraði hún manni sem spurðist fyrir um þennan rugling með orðunum „Almenn grímuskylda í verslunum já.“

Lausleg athugun fréttastofu bendir til þess að margir, ef ekki flestir, noti nú grímu í verslunum.

Almannavarnir uppfæra og ráðuneyti áréttar

Almannavarnir hafa í kjölfar fréttar RÚV um málið uppfært texta á heimasíðu sinni þar sem finna má gildandi takmarkanir á samkomum.

Fyrir uppfærslu stóð á vef almannavarna, covid.is:

Andlitsgrímur skal nota í almenningssamgöngum, í verslunum og annarri þjónustu. Einnig skal nota andlitsgrímur þar sem ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðarreglu svo sem í heilbrigðisþjónustu, [...]

Nú hefur textinn verið uppfærður og stendur:

Andlitsgrímur skal nota þar sem húsnæði er illa loftræst eða ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðarmörk svo sem í heilbrigðisþjónustu, verslunum, söfnum, [...]

Það að vefsíðan hafi verið uppfærð ber með sér að skilningur heilbrigðisráðherra hafi ekki verið réttur.

Textinn er þó skrifaður svo loðið að lesi maður hann án þess að vita hvernig hann var áður, mætti allt eins skilja hann á annan veg. Það er að  heilbrigðisþjónusta, verslanir, söfn o.fl. séu dæmi um staði þar sem aldrei er hægt að tryggja eins metra reglu og því beri að nota grímu.

Heilbrigðisráðuneytið sendi í kvöld frá sér tilkynningu þar sem reglurnar eru sagðar áréttaðar. „Þetta bætir engu við og gerir þetta enn ruglingslegra,“ segir Andrés.