Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Útgöngubann um nætur í Afganistan

25.07.2021 - 00:53
epa09356804 Afghan security officials inspect the scene of a road side bomb blast that killed six civilians on the outskirts of Jalalabad, Afghanistan, 21 July 2021. The Afghan government and the Taliban have agreed to hold fresh discussions after peace talks in Doha ended over the weekend without an agreement over the situation in Afghanistan, which has witnessed unprecedented violence since the foreign troops began pulling out in May. Since May, the Taliban have captured more than 130 district centers across Afghanistan, especially in the northern parts of the country.  EPA-EFE/GHULAMULLAH HABIBI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ríkisstjórn Afganistans fyrirskipaði í dag útgöngubann um nær allt land frá klukkan tíu á kvöldin til fjögur að morgni, í von um að torvelda talibönum þannig innrásir í bæi og borgir landsins. Útgöngubannið gildir alstaðar nema í höfuðborginni Kabúl og tveimur héruðum öðrum.

BBC greinir frá þessu. Átök talibana og afganska stjórnarhersins hafa aukist og harðnað síðustu vikur og mánuði, eftir að Bandaríkin og önnur Nató-ríki tóku að flytja herafla sinn frá landinu. Hafa talibanar sótt æ meira í sig veðrið eftir því sem fækkað hefur í erlenda herliðinu og er nú svo komið að þeir hafa allt að helming landsins á sínu valdi.

Þeir hafa þegar tryggt yfirráð sín yfir nokkrum landamærastöðvum í afskekktari héruðum Afganistans og enginn fer um nokkra mikilvæga þjóðvegi landsins án þeirra leyfis. Þeir hafa líka sótt að nokkrum stærri bæjum og borgum upp á síðkastið en ekki tekist að ná þeim á sitt vald enn.

„Til að stemma stigu við ofbeldisverkum og hamla aðgerðum talibana hefur útgöngubann um nætur verið innleitt í 31 héraði,“ segir í yfirlýsingu frá innanríkisráðuneytinu. Tekið er fram að þetta gildi ekki um Kabúl, og heldur ekki um Pansjír- og Nangarhar-héruð.