Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Markasúpa í leikjum kvöldsins

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Markasúpa í leikjum kvöldsins

25.07.2021 - 21:50
Þrír leikir fóru fram í 14. umferð Pepsi Max deildar karla í kvöld og í þeim voru sannarlega skoruð mörk. Keflavík vann nokkuð óvæntan sigur á Keflavík, 2-0, Valur vann HK 3-0 og Víkingur skoraði sömuleiðis þrjú mörk í leik sínum gegn Stjörnunni sem lauk 3-2.

Breiðablik var fyrir heimsókn sína til Keflavíkur í 3. sæti deildarinnar með 23 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Vals og sigur því mikilvægur í toppbaráttunni. Keflvíkingar, sem voru fyrir leikinn í 9. sæti, voru hins vegar ekki á þeim buxunum að gefa þeim þann sigur og rétt fyrir hálfleik komst Joseph Gibbs inn í sendingu Viktors Arnar Margeirssonar og skoraði. Staðan í hálfleik því óvænt 1-0 fyrir Keflavík. Það var svo eftir aðeins 3 mínútur í seinni hálfleik sem Frans Elvarsson skallaði aukaspyrnu frá Ingimundi Aroni Guðnasyni beinustu leið í netið og tvöfaldaði forystu Keflvíkinga. Með sigrinum kom Keflavík sér upp í 8. sætið en Breiðablik er enn í því þriðja. 

Valur styrkti á sama tíma stöðu sína á toppnum með öruggum 3-0 sigri á HK sem situr í næst neðsta sæti deildarinnar. Patrick Pedersen skoraði fyrsta mark Valsmanna rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og Birkir Már Sævarsson kom Val í 2-0 þegar 3 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Andri Adolphsson gulltryggði svo sigurinn á 67. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður. 

Víkingar fengu að lokum Stjörnumenn í heimsókn en liðin eru í baráttu á sitt hvorum enda töflunnar, Víkingur í 2. sæti einu stigi frá toppnum og Stjarnan í 10. sæti aðeins þremur stigum frá fallsæti. Garðbæingar komust yfir strax á 8. mínútu með rosalegu marki frá Oliver Haurits en Nikolaj Hansen jafnaði fyrir Víking tæpum hálftíma síðar. Jafnt var í hálfleik, 1-1, en Nikolaj var aftur á ferðinni fyrir Víking eftir tveggja mínútna leik í seinni hálfleik og á 69. mínútu bætti Helgi Guðjónsson við marki fyrir Víking. Emil Ólason lagaði stöðuna fyrir Stjörnuna á 90. mínútu og lokatölur 3-2. Víkingar enn í öðru sæti einu stigi á eftir Valsmönnum á toppi deildarinnar.