Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lennon með þrennu á Skaganum - KA vann í Breiðholti

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Lennon með þrennu á Skaganum - KA vann í Breiðholti

25.07.2021 - 18:51
FH og KA unnu sína leiki í 14. umferð Pepsi Max deildar karla í dag. FH vann góðan sigur á ÍA, 3-0, þar sem Steven Lennon skoraði þrennu og Norðanmenn gerðu góða ferð í Breiðholtið þar sem þeir unnu Leikni 1-0.

Skagamenn fengu FH-inga í heimsókn á Norðurálsvöllinn en ÍA var fyrir leikinn í botnsæti deildarinnar með 9 stig. Ekkert breyttist það eftir leikinn en eftir að hafa haldið aftur af Hafnfirðingum í 30. mínútur braut Hlynur Sævar Jónsson á Steven Lennon inni í teig. Steven fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi, 1-0, fyrir FH. 

Steven fékk að stíga aftur á punktinn þegar aðeins 4 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en þá braut Alexander Davey á honum inni í teig Skagamanna. Líkt og í fyrra vítinu endaði boltinn í markinu og staðan orðin 2-0 fyrir FH. Tæpum tíu mínútum síðar fullkomnaði Steven svo þrennu sína og kom FH í 3-0. Það urðu lokatölur og með sigrinum komast Hafnfirðingar því upp í 6. sæti með 18 stig en Skagamenn eru enn á botninum. 

Á sama tíma mættust Leiknir og KA í Breiðholtinu. Fyrir leikinn voru liðin hlið við hlið í deildinni, KA í 5. sæti með 20 stig og Leiknir í því 6. með 17 stig. Sigur hefði því geta komið Leiknismönnum upp að hlið KA. Þeim varð hins vegar ekki að ósk sinni en eina mark leiksins var KA-manna og kom á 14. mínútu þegar Ásgeir Sigurgeirsson afgreiddi boltann snyrtilega í netið. KA er þar með komið með 23 stig í 4. sæti deildarinnar eftir 13 leiki á meðan Leiknir fellur niður í 7. sæti. 

Þrír leikir eru svo á dagskrá í deildinni í kvöld og hefjast klukkan 19:15. Keflavík fær Breiðablik í heimsókn, Víkingur tekur á móti Stjörnunni og HK mætir Val í Kópavogi.