Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Leita að eftirlifendum í kappi við tímann

25.07.2021 - 06:18
epa09363339 A handout photo made available by India's National Disaster Response Force (NDRF) shows NDRF personnel during a rescue operation in Khed village, Ratnagiri district, Maharashtra, India 25 July 2021. According to the district administration, heavy to very heavy rainfall and flooding in Maharashtra killed over 75 people and many are feared trapped in three landslides in various areas.  EPA-EFE/NATIONAL DISASTER RESPONSE FORCE / HANDOUT  BEST QUALITY AVAILABLE HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - NATIONAL DISASTER RESPONSE FORCE
Fjölmennt leitarlið vinnur nú baki brotnu í kappi við tímann í von um að finna fólk á lífi á hamfarasvæðunum á vestanverðu Indlandi, þar sem ógurlegar monsúnrigningar síðustu daga ollu mannskæðum flóðum. Á annað hundrað þúsund manns hafa verið flutt frá þeim svæðum sem verst hafa orðið úti í ríkjunum Goa og Maharashtra.

136 hafa fundist látin í Maharashtra og í Goa hafa hundruð íbúðarhúsa skemmst eða eyðilagst, segir í frétt BBC. Leitar- og björgunarfólk hefur átt í erfiðleikum með að komast til fólks í neyð, þar sem vegir hafa víða rofnað vegna vatnavaxta og aðrir lokast vegna skriðufalla, þar á meðal aðal þjóðvegurinn milli stórborganna Goa og Mumbai.

Forsætisráðherra Goa, Pramod Sawant, segir flóðin þar þau mestu um áratugaskeið og hafa valdið geypilegu tjóni. Í Maharashtra hafa yfir 90.000 manns neyðst til að yfirgefa heimili sín og forða sér í öruggt skjól fjarri ám sem flæða yfir bakka sína og stíflum sem eru á barmi þess að bresta. Spáð er áframhaldandi vatnsveðri á vestanverðu Indlandi næstu daga.