Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hélt að hvíld væri leti og ómennska

Mynd: Aðsendar / RÚV

Hélt að hvíld væri leti og ómennska

25.07.2021 - 09:00

Höfundar

„Menntamálaráðherra hringir örugglega í mig á morgun og segist ætla að kæra mig fyrir að skrifa íslensku ógagn,“ segir Kamilla Einarsdóttir rithöfundur. Ritstífla geti verið gríðarlega kvíðavaldandi fyrirbæri en það þurfi þó ekki að óttast hana.

Líklega má segja að flestir sem fást við skrif komist einhvern tímann á ritferlinum í tæri við ritstíflu og þann kvíða sem henni fylgir. Þau Guðrún Eva Mínervudóttir, Kamilla Einarsdóttir og Matthías Tryggvi Haraldsson, rithöfundar, hafa hvert sína reynslu af fyrirbærinu og nálgast hana með jákvæðu viðmóti.  

Að skrifa er sérstök vinna 

„Mér dettur strax eitt í hug,“ segir Guðrún Eva í viðtali við þau Melkorku Gunborg Briansdóttur og Tómas Ævar Ólafsson í Tengivagninum á Rás 1. Það hafi verið mikill barningur fyrir hana að skrifa skáldsöguna Yosoy, sem kom út 2005, og tekið um þrjú ár að klára. „Mér leið stundum eins og ég væri að flytja fjall með berum höndum,“ segir hún. Eftir að bókin var loksins komin út var Guðrún Eva búin á því en ætlaði strax að henda sér í næsta verk. „En það var bara ekki hægt, og ég var mjög örvæntingafull og í hugarástandi sem ég átta mig á núna að var bara frekja og tilætlunarsemi í minn eigin garð og músanna.“  

„Ég bara komst ekkert áfram og fannst eins og ég væri bara búin að vera og það væri eitthvað að mér,“ segir Guðrún Eva. Hún hafi reynt að þjösnast áfram með verkið, reynt að kreista eitthvað fram sem var ekki orðið til vegna þess að hún hafi ekki gefið því tíma til að verða til. „Ég hélt að hvíld væri leti og ómennska. Sem er bara algjör misskilningur.“ Skriftir séu mjög sérstök vinna, fólk geti ekki verið að í 8-9 tíma að skrifa. „Ég held að flestir höfundar séu bara heiðarlegt fólk og taki það mjög alvarlega að vera á ritlaunum. Þannig að þegar maður er á ritlaunum vill maður standa undir því og vera alltaf að vinna,“ segir Guðrún Eva en hún heldur að fólk klári sig bara þannig að það þurfi að jafna sig ef það vinni svo mikið. „Ég held að fólk geti orðið mjög veikt af því að skrifa meira en það les,“ segir Guðrún en hún mælir með því að lesa mikið af bókum til að jafna sig eftir skrif, það sé líka hluti af vinnunni.  

„Af hverju var ég að eyða tíma í þetta?“ 

„Ég er ekki viss um að ég hafi upplifað ritstíflu í alvöru, þannig að ég geti ekki byrjað,“ segir Kamilla. Að sögn er hún alveg laus við fullkomnunaráráttu sem hún telur oft vera orsök ritstíflu. „Ég er algjörlega svona láta-kylfu-ráða-kasti-týpa.“ Þó svo að henni þyki ekkert mál að byrja hefur Kamilla upplifað að vera langt á veg komin með verk og missa svo neistann. Þá muni hún ekkert af hverju hún byrjaði á þessu og finnst það ekkert spennandi lengur, þá komi upp smá angist hjá henni.  

„Einhver sagði mér að það væri oft af því að þetta var ekki nógu góð hugmynd eða þú ert ekki tilbúin í hana núna. Og þá er bara að leggja verkið til hliðar,“ það hafi hún gert nokkrum sinnum. „Ég var í vikunni að kíkja á eitthvað gamalt, þá sá ég að þetta var bara ekki nógu gott og það er allt í lagi. Þetta er bara merki um að þú eigir að byrja á einhverju allt öðru.“  

Kamilla segir að það komi tímabil þar sem manni finnist verkið vera algjört drasl, jafnvel þau skemmtilegustu. „Menntamálaráðherra hringir örugglega í mig á morgun og segist ætla að kæra mig fyrir að skrifa íslensku ógagn,“ segist hún stundum hugsa með sér á þessum augnablikum. „Stundum ferðu af stað með einhverja tilfinningu, neista, og svo deyr hann út og þá geturðu ekki klárað þetta með sömu tilfinningu.“ 

Henni þyki gott að vita af því að fleiri hafi lent í svipuðu. Hún rifjar upp sögu af föður sínum, Einari Kárasyni, þegar hann var að skrifa bókina Stormfuglar. „Þá var hann að hálfvinna við hana en oft lagt til hliðar í mörg ár. En svo allt í einu fattar hann eitthvað og klárar hana á sex vikum og hún er æði.“ Kamilla segist halda að það sé bara fínt að geyma sum verk enda muni ekkert gerast þótt maður klári aldrei neitt. „Það má líka bara vera gaman að vera að þessu.“ 

Ranghugmynd um að maður sé gáfaður eða snillingur  

„Þessar aðstæður, þar sem ritstífla kemur upp, er kannski pressa, eða sú ranghugmynd um mann sjálfan að maður sé gáfaður eða snillingur,“ segir Matthías og bætir við að ástæðan geti verið að maður hreinlega gleymi að næra sig, lesa texta eftir aðra og vera forvitinn. „Þegar maður er bara innilokaður í turni sem maður er búinn að búa sér til og heldur að maður geti kreist fram einhverja rosalega titla.“  

Matthías segir ritstíflu lýsa sér þannig að það séu efasemdaraddir innra með manni sem birtast í vonleysi. „Þú ert í egóinu og áliti annarra og ert í einhvers konar efniskenndum hugmyndum um einhvern feril, en ekki bara að leika þér að verkinu sem er fyrir framan þig.“ Þetta búi til sjálfskapaða pressu og þjóni ferlinu ekkert. „Ef maður gleymir að lesa góða texta eftir aðra þá er maður dæmdur í ritstíflu,“ segir Matthías og bætir við að oft sé það eina sem dugi að leggja frá sér vinnuna og fara að lesa. 

Gerði ekkert nema að mála rauða ketti  

Guðrún segir að eftir að hafa átt erfitt með að byrja á næsta verki hafi henni verið ráðlagt að setja sjálfa sig í straff. Hún mætti ekki skrifa stakt orð allt sumarið. Hún fylgdi þessu ráði. „Ég ýtti slæmu samviskunni til hliðar og óttanum um að ég myndi enda í ræsinu ef ég væri ekki alltaf að vinna. Og það bara virkaði,“ segir hún. Þegar hún settist niður 1. september það árið skrifaði hún fyrstu blaðsíðuna í Skaparanum, sem kom út 2008.  

„Mér fannst ógeðslega gott sem Júlía systir sagði,“ segir Kamilla og á þá við Júlíu Margréti Einarsdóttur, rithöfund, „hún sagði mér einu sinni að Vigdís Grímsdóttir, sem við lítum báðar rosalega upp til, fékk einu sinni ritstíflu. Þá hafi hún ekki gert neitt í tvö ár annað en að mála rauða ketti.“ Kamilla hafi fundið fyrir miklum létti þegar hún heyrði það því kvíðinn vegna yfirvofandi ritstíflu geti einnig stöðvað mann. „En það að vita að ef illa gengur þá fer ég bara að mála rauða ketti, það er ekkert slæmt.“  

„Þegar maður man að lífið er brandari þá er það léttara,“ segir Matthías. „Þá meina ég að muna að listaverkin eru bara einn stór brandari. Þá finnur maður einhvern veginn orkuna sem maður fann þegar maður var að byrja.“ Hann segir það ekki manns eigið að dæma hvort verkið verði gott, maður verði bara að vera inni í því, hafa smá dellu fyrir því og leyfa sér að synda í þeim sjó án þess að huga að ytri byggingunni.  

Ætlar ekki að kreista blóðið undan nöglunum á sér  

„Ég er kannski búin að læra að vera ekki svona örvæntingarfull,“ segir Guðrún Eva, það sé dágóður tími síðan hún hafi ákveðið að ef hún skyldi aldrei aftur skrifa aðra bók væri það allt í lagi. „Það skiptir máli að þetta fái að koma sjálft,“ segir hún, tilverréttur henni velti ekki á skrifum hennar.  

Hún hafi eitt sinn rætt við rithöfund, sér nokkrum áratugum eldri, sem hafði náð sæmilegum árangri. Hann hafi sagt að fyrir sér væri að skrifa eins og að kreista blóðið undan nöglunum á sér. „Hjartað bara sökk, ég fann svo til með honum og ákvað strax að það skyldi ekki verða mitt hlutskipti.“ Frekar skyldi hún fá sér vinnu í sjoppu og láta gott af sér leiða þar. „Mér finnst eins og það sjáist á textanum ef þetta hefur verið of mikill kreistingur,“ segir Guðrún Eva, það sé eitthvað flæði sem rithöfundar komist í sem lesendur geti fundið fyrir meðan á lestri stendur. 

„Það er leiðinlegt en núna eftir að hugsa um það finnst mér í alvörunni bara gott að það gerðist,“ segir Kamilla um verkið sem hún gafst upp á. „Sennilega var ég mjög leið yfir því á þessum tíma, en núna er ég búin að jafna mig á því og finnst það ekkert sorglegt. Ég kvíði því ekki lengur að þetta gerist.“ Hún segir mestu sorgina við það hafa verið að hún hafi ekki fengið að kaupa sér flott útgáfudress.  

„Við höfum ekki vit á því að hvíla okkur“ 

„Það sem ég held að rithöfundar kalli ritstíflu er bara þreyta, við höfum ekki vit á því að hvíla okkur,“ segir Guðrún Eva. Skáldsögur taki svo gríðarlega stórt pláss í höfðinu og því þurfi maður að varpa öndinni léttar, leyfa öllu að jafna sig og gróa um heilt áður en maður keyrir af stað í næsta verk. „Helst á maður auðvitað ekkert að vera að þjösnast.“  

Að ná góðum neista er eins og að vera ástfanginn, segir Kamilla. „Eins og að ráfa um og utan í ljósastaura, finnst allt fyndið og skemmtilegt.“ Það sé leiðinlegt þegar neistinn deyr en það er eins og með ástarsamböndin. „Þú ert á bömmer í smástund og svo finnurðu eitthvað annað, það eru ekkert öll sund lokuð.“ Ritstífla sé því ekki af hinu slæma ef maður tekur henni ekki of alvarlega. „Það er til margt miklu verra til að vera hrædd við, held ég,“ segir Kamilla.  

„Það má segja að ritstífla sé líka af hinu góða, vegna þess að líkaminn segir bara stopp, maður er bremsaður af,“ segir Guðrún Eva. Það sé líklega betra í öllum tilvikum lífsins að vera stoppaður af fyrr en síðar. „Betra að brenna út og jafna sig síðan heldur en að halda áfram í gegnum “burnout“ og fá einhvern ólæknandi sjúkdóm.“  

Rætt var við Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Matthías Tryggva Haraldsson og Kamillu Einarsdóttur í Tengivagninum á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.  

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Hollt að kunna að vera leikhússgestur heima hjá sér

Menningarefni

Matthías Tryggvi ræðir við litla Hatara um dauðann

Bókmenntir

„Kom mér óvart upp akademíu í bakgarðinum“

Bókmenntir

„Ekki mínar uppáferðir og fyllirí“