Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fyrsti tapleikur Bandaríkjanna síðan 2004

epa09364781 Evan Fournier (C) of France in action against  Jrue Holiday (L) of USA during the 2020 Tokyo Summer Olympics basketball game between France and United States of America, at Saitama Super Arena in Tokyo, Japan, 25 July 2021.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Fyrsti tapleikur Bandaríkjanna síðan 2004

25.07.2021 - 14:44
Óvænt úrslit urðu í viðureign Frakklands og Bandaríkjanna í körfubolta karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag. Eftir að hafa leitt mest allan leikinn misstu Bandaríkjamenn dampinn undir lok leiksins og töpuðu nokkuð óvænt fyrir sterku frönsku liði. Þetta er fyrsta tap Bandaríkjamanna í riðlakeppni síðan á Ólympíuleikunum árið 2004 í Aþenu.

Keppni í körfubolta karla hófst í dag með stórleik Bandaríkjanna og Frakka, bæði lið hafa ekki átt of góðu gengi að fagna fyrir leikana þar sem bæði lið töpuðu vináttuleikjum á undanförnum vikum. Það var hins vegar kraftur í báðum liðum þegar leikurinn hófst og Bandaríkjamenn byrjuðu vel. 

22-15 var staðan eftir fyrsta leikhluta og Bandaríkjamenn unnu annan leikhlutann sömuleiðis 23-22 og leiddu með átta stigum. Kevin Durant ein skærasta stjarna Bandaríska liðsins lenti snemma leiks í villuvandræðum og var kominn með fjórar villur í þriðja leikhlutanum. Frakkar keyrðu á Bandaríkjamenn og Evan Fournier, sem átti stórkostlegan leik, dró vagninn. 

Þegar í fjórða og síðasta leikhlutann var komið virtust Bandaríkjamenn vera að sigla burtu með sigurinn en allt kom fyrir ekki, Frakkar komu til baka og unnu að lokum 83-76. Þetta er einungis sjötti tapleikur Bandaríkjanna í riðlakeppni á 19 Ólympíuleikum og sá fyrsti síðan árið 2004 þegar liðið tapaði fyrir Litáen og Púertó Ríkó.