Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjöldamótmæli gegn Bolsonaro

25.07.2021 - 07:30
Demonstrators carry crosses and a large sign with a message that reads in Portuguese: "550 thousand deaths, Bolsonaro!", during a protest demanding the impeachment of Brazilian President Jair Bolsonaro, at the Esplanade of Ministries in Brasilia, Brazil, Saturday, July 24, 2021. Activists called for nationwide demonstrations against Bolsonaro, to demand his impeachment amid allegations of potential corruption in the Health Ministry's purchase of COVID-19 vaccines and his handling of the pandemic. (AP Photo/Eraldo Peres)
 Mynd: AP
Tugir og jafnvel hundruð þúsunda fóru um götur 400 borga og bæja í Brasilíu í gær til að krefjast afsagnar eða embættissviptingar forsetans Jairs Bolsonaros. Mótmælti fólk aðgerðum hans en þó enn frekar aðgerðaleysi í COVID-19 faraldrinum, hægagangi við bólusetningu og miklu og vaxandi atvinnuleysi í landinu.

 

 

Fjölmennust voru mótmælin í stærstu borgum landsins, Ríó de Janeiro og Sao Paulo þar sem fólk hélt á lofti kröfum um að forsetinn yrði sviptur embætti með slagorðum á borð við „Burt með þig, spillti glæpamaður!" og „Þetta þolir enginn lengur!"

Mótmæli gærdagsins voru þau fjórðu sem stjórnmálaflokkar á vinstri vængnum, verkalýðshreyfingin og ýmis félagasamtök hafa efnt til gegn forsetanum og ríkisstjórn hans síðan í vor, og þau fjölmennustu hingað til. Haft er eftir skipuleggjendum í Ríó að tilgangurinn með aðgerðum dagsins væri að virkja landsmenn til að „verja lýðræðið, vernda líf Brasilíumanna og koma Bolsonaro frá völdum."

Mótmælendur gagnrýndu hve hægt og illa gengur að bólusetja þjóðina, mikið og viðvarandi atvinnuleysi og skort á neyðaraðstoð við fátækustu og viðkvæmustu hópa samfélagsins á tímum heimsfaraldursins.

Yfir 550.000 manns hafa dáið úr COVID-19 í Brasilíu, sjúkdómi sem forsetinn hefur jafnan talað niður og þverskallast við að viðurkenna sem raunverulega ógn. Einungis Bandaríkin hafa þurft að sjá á eftir fleira fólki í gröfina af völdum COVID-19, en þar eru íbúar ríflega þriðjungi fleiri en í Brasilíu.