Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki grímuskylda í helstu matvöruverslunum

25.07.2021 - 11:32
Örtröð í Bónus á föstudeg eftir tilkynningu um samkomubann sem hefst aðfaranótt mánudags.
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Það er ekki grímuskylda í öllum helstu matvöruverslunum en verslunareigendur biðja fólk um að setja upp grímur. Það gætir misræmis á milli reglugerð heilbrigðisráðherra og upplýsinga á covid.is. Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að skilaboðin frá stjórnvöldum mættu vera skýrari.

Hertar takmarkanir tóku gildi á miðnætti. Nú þarf fólk að taka aftur upp andlitsgrímurnar en það virðist ekki alveg nógu skýrt hvar þær þarf að bera. Á covid.is segir: „Andlitsgrímur skal nota í almenningssamgöngum, í verslunum og annarri þjónustu. Einnig skal nota andlitsgrímur þar sem ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðartakmörkun.“ Í reglugerð heilbrigðisráðherra segir hins vegar að andlitsgrímur skuli nota þar sem húsnæði er illa loftræst eða ekki unnt að tryggja nálægðartakmörkun. Það er því undir verslunareigendum komið að meta hvort grímuskylda eigi við hjá þeim eða ekki.

Ekki grímuskylda, bara tilmæli

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að langflest verslunarhúsnæði hér séu vel loftræst og rúmgóð og það sé ekki grímuskylda í öllum helstu matvöruverslunum. „Það er ekki grímuskylda, það er alveg skýrt samkvæmt reglugerðinni að það er ekki grímuskylda. En hins vegar þá munu matvöruverslanirnar, allar má ég segja, beina þeim tilmælum til viðskiptavina sinna að bera grímur þegar þau koma inn í búðirnar. Bara til að taka af allan vafa. Það er hins vegar þannig að það er ekki skylda samkvæmt reglugerðinni að bera grímur inni í verslunum. Það er eingöngu þegar það er ekki hægt að virða fjarlægðarmörk eða loftræsting er ónóg inni í verslunum,“ segir Andrés. 

Þetta virðist stangast á við skilning heilbrigðisráðherra á reglugerð sinni. Aðspurð á Twitter af manni sem rak augun í þetta misræmi segir hún að það sé almenn grímuskylda í verslunum.

Framkvæmdastjórar Bónus, Krónunnar og Hagkaups tóku undir það í svari við fyrirspurn fréttastofu að það væri ekki grímuskylda en vinsamleg tilmæli til viðskiptavina að bera grímu.

Skilaboð stjórnvalda óskýr

Andrés segir að verslunareigendur vilji vinna með stjórnvöldum en skilaboðin frá þeim mættu vera skýrari. „Já það er ekkert hjá því komist að orða það þannig að skilaboðin sem koma frá stjórnvöldum mættu vera skýrari. Það eru alveg hreinar línur. Það er ekki samræmi milli þess sem stendur í reglugerðinni og þess sem stendur á covid.is. Við munum beina þeim, og höfum beint þeim tilmælum til stjórnvalda að eyða því misræmi og taka af allan vafa í þessum efnum,“ segir Andrés.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ.