Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Breytt ásýnd Miðflokksins og ákall um fleiri konur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjórinn hafði betur í baráttu við þingmanninn um oddvitasæti Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Fjóla Hrund Björnsdóttir framkvæmdastjóri Miðflokksins fékk 58% atkvæða en þingmaðurinn Þorsteinn Sæmundsson  42%.  Flokkurinn boðaði til oddvitakjörs eftir að tillaga uppstillingarnefndar, þar sem Fjólu var stillt upp í 1. sæti, var felld á félagsfundi. Bæði eiga rætur í Framsóknarflokkum, Þorsteinn var þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi 2013 til 2016 og þingmaður Miðflokksins frá 2017. 

Fjóla segir að úrslitin hafi komi henni á óvart. Hún ætlar að leggja áherslu á hagsmuni unga fólksins. „Svo eru mörg mál sem brenna á Reykvíkingum eins og samgöngumál, heilbrigðismál og önnur sem ég þarf að vinna að í kosningabaráttunni“.  Hún segist ætla að gera allt sem hún geti til að tryggja Miðflokknum þingsæti í höfuðborginni en staðan í skoðanamælingum hefur ekki gefið vísbendingar um það.  „Þess vegna þurfa að verða einhverjar breytingar og ég í oddvitasætinu er því að svara kalli félagsmanna um breytingar. Vonandi hjálpar það okkur í kosningunum“. 

Hún segir að framboðið hafi ekki beinst gegn Þorsteini Sæmundssyni. „Það var ákall um breytingar ekki bara í þessu kjördæmi og þetta er bara svar við því.  Fólk vill breytta ásýnd á flokknum og það hefur verið kallað eftir fleiri konum í oddvitasæti.

Þorsteinn Sæmundsson segist þakklátur öllum þeim sem studdu hann og metur það þannig að stór hluti flokksmanna í Reykjavík kunni að meta reynslu hans og störf. Niðurstaðan var lýðræðisleg og ljóst að lýðræðið virkar í Miðflokknum.

Ertu þá hættur í stjórnmálum?

„Ég er ekki hættur að tjá mig og á ólokið verkefni sem enginn tekur við. Ég þarf að klára mál sem tengjast íbúðum sem fólk missti í fang Íbúðarlánasjóðs og fleiri málum sem ég þarf að klára. Ég verð kannski ekki svona áberandi í pólitísku starfi alveg á næstunni“.

Þorsteinn verður ekki í framboði í kosningunum í haust en hvað með kosningarnar þar á eftir?

 „Ef næsta kjörtímabil verður eðlilegt þá verð ég orðinn 71. eða 72. ára gamall. Þótt það sé nú barnaskapur í Ameríku þá á ég nú ekki von á því að sækjast eftir þingsæti þá. Ég bar þá von í brjósti að flokkurinn myndi sjá tækifæri í þessum kosningum að vera eini flokkurinn með mann á þessum aldri í baráttusæti, ég er 67 ára. Menn ákváðu að það væri meira ákall eftir konum og það kemur í ljóst 25. september hvort það ákall skilar sér í atkvæðum til flokksins.“

 

Arnar Björnsson