Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Blummenfelt gaf allt sem hann átti og uppskar sigur

epa09365609 Kristian Blummenfelt of Norway celebrates after winning the Men's Triathlon race of the Tokyo 2020 Olympic Games at the Odaiba Marine Park in Tokyo, Japan, 26 July 2021.  EPA-EFE/WU HONG
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Blummenfelt gaf allt sem hann átti og uppskar sigur

25.07.2021 - 23:58
Norðmaðurinn Kristian Blummenfelt stóð uppi sem sigurvegari í þríþraut karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í kvöld. Eftir jafna og spennandi keppni framan af gaf Blummenfelt allt sem hann átti og stakk keppinautana af á síðasta kílómetranum.

Það er erfitt að segja að aðstæður í Tókýó hafi verið með besta móti fyrir þríþrautarkeppni en mikill hiti og raki er á svæðinu. Keppendur voru ræstir klukkan 6:30 að staðartíma til að koma í veg fyrir að þeir þyrftu að synda, hjóla og hlaupa í mesta hitanum sem var samt sem áður talsverður. 

Ólympíumeistari síðustu tveggja leika, Alistair Brownlee frá Bretlandi, var ekki meðal keppenda í ár og ljóst að nýr Ólympíumeistari yrði krýndur. Bróðir Alistair, Jonathan Brownlee, sem fékk silfur á síðustu leikum og brons á leikunum í London 2012 var talinn til alls líklegur en það voru fleiri.

Norðmaðurinn Kristian Blummenfelt var einn þeirra og varð á endanum sá sem stóð uppi sem sigurvegari. Eftir að hafa haldist í nokkuð stórum hóp í gegnum sund- og hjólahluta brautarinnar dreifðist úr keppendum þegar kom að því að hlaupa síðustu 10 kílómetrana. Að lokum voru Blummenfelt, Alex Yee frá Bretlandi og Hayden Wilde frá Nýja-Sjálandi búnir að slíta sig frá hópnum og ljóst að þeir myndu enda á palli, bara spurning um í hvaða röð. 

Þá gaf Blummenfelt allt sem hann átti, tók á rás síðasta kílómetrann og kom fyrstur í mark á tímanum 1:45:04. Áreynslan og hitinn var svo mikill að hann bókstaflega hrundi yfir marklínuna og var á endanum keyrður út í hjólastól. En gullið fór engu að síður til Noregs, Alex Yee nældi í silfur fyrir Breta og Hayden Wilde í brons en báðir voru þeir á sínum fyrstu Ólympíuleikum. Belginn Marten van Riel varð í fjórða sæti og Jonathan Brownlee varð að láta sér lynda það fimmta.

Bein útsending frá keppni í þríþraut kvenna verður á RÚV á morgun, mánudagin 26. júlí, klukkan 21:20.