Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Miklar annir við COVID-sjúkraflutninga

Mynd með færslu
 Mynd: Rauði krossinn
Miklar annir hafa verið við sjúkraflutninga hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins síðustu daga, samhliða fjölgun COVID-smita. Í nótt voru tuttugu og þrír slíkir flutningar og síðustu daga hefur fjöldinn verði svipaður. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðstjóri, segir að fólki hafi aðeins verið fjölgað í slökkviliðinu en að álagið hafi þó aukist. 

„Ef við tökum bara árið í ár þá höfum við verið með að meðaltali átta flutninga á dag, en síðustu vikuna eru þetta um tuttugu flutningar að meðaltali á dag. Þannig að það er að slá okkur,“ segir Jón Viðar.

Mynd með færslu
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.  Mynd: RÚV/Guðmundur Bergkvist

Þá bendir Jón Viðar á að COVID-flutningar séu tímafrekari en aðrir, enda séu reglur um hlífðarfatnað strangari og sótthreinsa þurfi bílana. Einnig hefur verið mikið að gera við aðra sjúkraflutninga. „Við erum að sjá núna hluti eins og yfir hundrað flutninga á sólarhring sem er orðið bara núna normið sem var eiginlega sjaldgæft hjá okkur fyrir einu til tveimur árum síðan.“ Síðsta sólarhringinn voru sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu 151 talsins.