Keyrði Land Rover ellefu ára með fullan bíl af krökkum

Mynd: hallaharðar / hallaharðar

Keyrði Land Rover ellefu ára með fullan bíl af krökkum

24.07.2021 - 11:05

Höfundar

„Barnaverndarstofa færi strax í málið ef þau kæmust að þessu í dag,“ segir Eiríkur Ágúst sem er alinn upp í Flóahreppi, um suma siði og venjur í sveitinni í hans æsku. Hann segist vera einn síðasti Íslendingurinn sem ólst upp í klassísku bændasamfélagi, sem lék sér með legg og skel og stritaði í fjósinu. Margir dagar eru eftirminnilegir, ekki síst þegar litla systir hans fæddist.

Eiríkur Ágúst fornbókasali er fæddur og alinn upp í sveit í Villingaholtshreppi sem í dag nefnist Flóahreppur. Á bænum bjuggu langafi og langamma Eiríks, afi hans og amma, foreldrar hans, föðursystir og Siggi bróðir hans. „Þetta var hið klassíska bændasamfélag og ég náði í restina af því. Ég átti legg og skel og svona og sló með orfi,“ segir Eiríkur um uppeldið. „Ég er þessi kynslóð sem er að deyja út, þeir deyja bara með mér þessir menn sem kunnu þetta.“ Eiríkur ræddi um ást sína á sveitinni og örlagaríkan dag úr æsku, í Ástarsögum á Rás 1.

Á sumrin var mikið af fólki í sveitinni og dagarnir hver öðrum líkir. „Maður fór ekki í leikskóla eða neitt, maður var bara alltaf heima uppi á lofti hjá mömmu og úti í verkum með afa að gefa hænunum,“ rifjar Eiríkur upp. Það voru ekki mörg börn á hans reki í nágrenninu en á næsta bæ voru eldri börn sem stundum leyfði honum, sem var sex ára og Sigga bróður hans sem var fjögurra ára, að vera með. Annars léku þeir mikið við hvorn annan og voru nánir bræður.

Fannst langafi eldgamall en er orðinn eldri en hann í dag

Afi Eiríks var bóndi og þúsundþjalasmiður og Eiríkur segir að allt hafi leikið í höndunum á honum. Amma hans var klassísk húsmóðir og Eiríkur minnist þess að hjá henni hafi alltaf verið kökuilmur. Í bænum við hliðina bjuggu langafi og langamma Eiríks og bræðurnir kölluðu heimil þeirra Langömmubæ. „Þegar ég fer að muna eftir mér eru þau ofboðslega gömul og afi Siggi er ofsa gamall,“ segir Eiríkur en þegar hann reiknar dæmið til enda áttar hann sig á því að þau hafi kannski ekki verið svo roskin. „Á þessum tíma var hann yngri en ég er núna, og ég er bráðungur!“

Laxness var fyrirlitinn á heimilinu

Eiríkur sinnti langafa sínum vel, bar á hann fótakrem því hann glímdi við fótamein og eftir að hann varð blindur las Eiríkur fyrir afa sinn. „Ég las minningargreinar í Tímanum, önnur blöð voru ekki keypt, það var trúvilla,“ segir Eiríkur sem einnig las upp úr bókum Guðmundar G. Hagalín og Guðmundar Daníelssonar. En ekki bækur Halldórs Laxness. „Laxness var fyrirlitinn alveg.“

Keyrði í hringi eins og höfðingi

Á bænum voru kýr, hænur, naut, kindur, hross, hundar og kettir og það kom í hlut bræðranna Sigga og Eiríks að gefa dýrunum. Sex sjö ára gamall var Eiríkur orðinn afa liðtækur í húsverkunum. „Ég fór að slá með litlu orfi, alveg flugbeittum ljá. Barnaverndarstofa færi strax í málið ef þau kæmust að þessu í dag,“ segir hann og hlær. Ellefu ára var hann byrjaður að raka á Land Rovernum með systkini sín bróður sinn og systur sínar tvær, sem þá voru fæddar, aftan í bílnum. „Svo keyri ég eins og höfðingi hring eftir hring með fullan bíl af krökkum,“ segir hann.

„Hvar er mamma?“

17. maí árið 1971 er dagur sem Eiríkur gleymir seint. „Þessi dagur er mér ljóslifandi,“ segir hann. Þeir Siggi bróðir hans vöknuðu snemma um morguninn og sáu að amma þeirra var hjá þeim uppi á lofti, sem var alls ekki venjan. Þeir spurðu ömmu sína hissa: „Hvar er mamma?“ Og amman svaraði þeim: „Hún er að eiga barnið.“ Þegar þeir spurðu hvar pabbi þeirra væri svaraði hún: „Hann er að mjólka.“

Drengirnir fóru niður og borðuðu morgunmat og biðu frekari fregna. „Við vissum við Siggi að mamma væri búin að vera ólétt, hún var búin að vera þung á sér og kannski ekki alveg í formi,“ segir Eiríkur. „Hún hafði ekki farið í fjósið í nokkrar vikur og var meira að segja það slöpp að hún hafði ekki saumað á okkur jólabuxurnar.“

Pabbi kom hlaupandi inn til að tala í símann

Skyndilega hringir sveitasíminn og á línunni hljómar: „Hvar er Guðjón, þeir vilja tala við hann á spítalanum.“ Strákarnir héngu í ömmu en Sigrún föðursystir þeirra fór að finna föður þeirra. „Svo sjáum við að þau eru að koma hlaupandi, Sigrún í útvíðum skálmum og pabbi langt á eftir, hann hljóp ótrúlega hægt. Hann hljóp eiginlega aldrei nema hann væri að elta hross!“

Fór í Selfossbuxur og betri blússuna

Faðir Eiríks tekur tólið og segir: „Sæl, það var nú gott. Við sjáumst Dísa mín.“ Þegar hann hafði skellt á spurðu allir hvað væri í gangi. „Það er stelpa,“ svaraði þá faðir hans og allir hrópuðu og föðmuðust. Svo náði faðir hans sér í kaffi og fór aftur í verkin en kom svo aftur inn og fór í sturtu. Það þótti bræðrunum merkilegt því það er ekki vaninn að fara í sturtu á miðjum degi. Svo klæddi hann sig upp í sparifötin. „Hann fór í Selfossbuxur, betri blússuna og ég held hann hafi sett á sig flauelshattinn.“

„Var búið að marka systur okkar?“

Bræðurnir voru sendir til langömmu í Langömmubæ á meðan pabbi þeirra fór á spítalann. Þeir fengu brjóstsykur og hún leyfði þeim að leika sér við að tálga með vasahnífum. Þegar faðir drengjanna kom heim vildu amma þeirra og föðursystir vita hvernig stelpan væri. „Pabbi vissi ekki mikið um það, hann talaði bara um metra og mörk,“ rifjar Eiríkur upp en bræðrunum leist alls ekki á blikuna. „Var búið að marka systur okkar?“ spurðu þeir sig undrandi. „Við vorum hneykslaðir á þessu, við höfðum séð mörkuð lömb og það blæddi úr þeim. Við höfðum áhyggjur af þessum mörkum.“

Þegar Rannveig litla systir kom loks heim fimm dögum síðar var hún alls ekki mörkuð eins og lamb, svo bræðurnir önduðu léttar. „Þetta er dagurinn sem hún Rannveig mín fæddist,“ segir Eiríkur.

Anna Marsibil Clausen ræddi við Eirík Ágúst í Ástarsögum á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á Ástarsögur í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Kreppan bjargaði bókabúðum

Bókmenntir

Nóg að gera í síðustu fornbókabúð Reykjavíkur