Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Er heimsendir í nánd?

Mynd: Wikimedia / Hieronymus Bosch, The Last Judge

Er heimsendir í nánd?

24.07.2021 - 14:00

Höfundar

Í þessum pistli eru áhrif Opinberunarbókar Jóhannesar, heimsendalýsingar Biblíunnar, á hamfaraumræðu nútímans skoðuð: Allt frá loftslagsbreytingum til COVID-19. Hvernig varpar upprunaleg merking orðsins apocalypse ljósi á heimsendafrásagnir?
Mynd með færslu

Úr Völuspá: 
Bræður munu berjast
og að bönum verða,
munu systrungar
sifjum spilla;
hart er í heimi,
hórdómur mikill,
skeggöld, skálmöld,
skildir og klofnir,
vindöld, vargöld,
áður veröld steypist,
mun engi maður
öðrum þyrma.

Hugmyndir um endalok heimsins hafa fylgt manninum frá upphafi. Hvort það eru ragnarök norrænnar goðafræði, harmageddón, dagatal Maya sem lauk árið 2012 eða spár vísindamanna um að sólin gleypi jörðina eftir nokkra milljarða ára, hafa þær sett mark sitt á mannkynssöguna með afgerandi hætti. 

Það er því ekki að undra að hugmyndir um endalok tímans séu miðlægar í helstu trúarbrögðum heimsins. Þetta á ekki síst við um kristnina, en eitt af ritum Nýja testamentisins er einmitt sérstaklega helgað heimsendi. Opinberunarbók Jóhannesar hefur sett mark sitt á fræðaheiminn og  innan guðfræðinnar hefur orðið til sérstök undirgrein, svokölluð heimsslitafræði, sem fjallar um ,,hina hinstu hluti“, endalok veraldarinnar eins og við þekkjum hana.

Í dag eru hugmyndir um heimsendi og hamfarir óvenju ofarlega á baugi. Kórónuveirufaraldurinn og loftslagsbreytingar hafa skekið alþjóðasamfélagið og hjá okkur á Íslandi bættist við jarðskjálftahrina á Reykjanesskaga og eldgos við Fagradalsfjall. Það er því óhætt að segja að hamfarirnar séu allt um kring. Og til þess að vinna úr og átta sig á erfiðum aðstæðum búa samfélög gjarnan til sögur og myndlíkingar. Opinberunarbók Jóhannesar er skrifuð á allegórísku og táknrænu tungumáli, en í gegnum aldirnar hefur áhrifamikil heimsendalýsing hennar einmitt verið yfirfærð á fjölda raunverulegra hamfara, allt frá útbreiðslu svartadauða á fjórtándu öld til kjarnorkuógnarinnar á tímum kalda stríðsins.

 

Mikael erkiengill sigrar Satan, Guido Reni, 1635
 Mynd: wbur.org
Mikael sigrar djöfulinn. Málverk eftir ítalska endurreisnarlistamanninn Guido Reni frá árinu 1635.

Opinberunarbók Jóhannesar er einn áhrifamesti texti menningarsögunnar. Þrátt fyrir þá ríflega tvö þúsund ára gjá sem aðskilur hana frá nútímanum nýtur áhrifa hennar ennþá. Höfundur hennar, sem titlar sig Jóhannes af Patmos, var mótaður af pólitísku umhverfi sínu árið 95 eftir Krist. Skrif hans hafa verið túlkuð sem allegórísk gagnrýni á stjórnskipan Rómaveldis og meintar ofsóknir keisarans Nerós á hendur kristnum mönnum. Því hefur jafnvel verið haldið fram að Jóhannes gagnrýni ágengni Rómaveldis í náttúruauðlindir en til að viðhalda afþreyingarvenjum og lífsgæðum þegnanna var stundaður mikill námugröftur, skógruðningur og slátrun dýra. 

Úr Opinberunarbókinni: 
Og mikill landskjálfti varð, og sólin varð svört sem hærusekkur, og allt tunglið varð sem blóð. Og stjörnur himinsins hröpuðu niður á jörðina eins og þegar fíkjutré, skekið af stormvindi, fellir haustaldin sín. Og himinninn sviptist burt eins og þegar bókfell vefst saman, og hvert fjall og ey færðist úr stað sínum.

Opinberunarbókin hefur nefnilega veigamikla vistfræðilega vídd. Sköpunarverk Guðs takmarkast síður en svo við manninn, heldur inniheldur líka náttúrulegt umhverfi hans, jörðina, sólina, tunglið og stjörnurnar, en einnig önnur dýr og jurtir. Einn áhrifamesti hluti Opinberunarbókarinnar og sá sem hreyfir kannski mest við nútímamanninum er nefnilega lýsing hennar á þeim gríðarlegu náttúruhamförum sem eru fyrirboði dómsdags. Fjöll og eyjar, sem við álítum stöðug og eilíf, færast úr stað, á meðan hagli, eldi og brennisteini kyngir niður úr himninum, hafið verður að blóði, dýr deyja og mennirnir kveljast vegna mengaðs vatns, hungursneyðar, farsótta, þurrka og brennandi elds.

Hinn fyrsti básúnaði. Þá kom hagl og eldur, blóði blandað, og því var varpað ofan á jörðina. Og þriðjungur jarðarinnar eyddist í loga, og þriðjungur trjánna eyddist í loga, og allt grængresi eyddist í loga.

Það er nefnilega ákafinn sem einkennir Opinberunarbókina frá upphafi, sú áhersla að skilaboð hennar séu áríðandi. ,,Tíminn er í nánd.“ Þessi veigamiklu orð birtast í upphafi bókarinnar en eru síðan endurtekin í lokakaflanum. Áhugaverðar hliðstæður er að finna í loftslagsumræðu dagsins í dag, þar sem málflutningurinn einkennist gjarnan af sama ákafa. Hin sænska Greta Thunberg flutti margumtalað erindi á ráðstefnu í borginni Davos í Sviss þar sem hún mælti þessi fleygu orð:
 

epa07850926 Swedish climate activist and Fridays for Future founder Greta Thunberg attends the joint House Foreign Affairs and House (Select) Climate Crisis committees hearing in the Rayburn House Office Building at the Capitol in Washington, DC, USA, 18 September 2019. The hearing's topic was 'Voices Leading the Next Generation on the Global Climate Crisis'.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER

,,Ég er hingað komin til að segja að húsið okkar brennur. Samkvæmt milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar höfum við minna en 12 ár til að afturkalla mistök okkar. [...] Mig langar að þið bregðist við eins og um neyðarástand sé að ræða. Mig langar að þið bregðist við eins og húsið sé að brenna, því þannig er það.“

Líkt og Jóhannes af Patmos leggur Greta Thunberg áherslu á tímann, nú sé ekki tími til að tala af kurteisi, heldur að fyllast skelfingu og grípa til aðgerða. Hún beitir myndlíkingum og endurtekningu á sambærilegan hátt og Biblían, endurtekur meira að segja orðin húsið okkar brennur síðar í ræðu sinni á nákvæmlega sama hátt og Jóhannes endurtekur tíminn er í nánd.

Á undanförnum árum hafa fræðimenn beint sjónum sínum að því hvernig umhverfissinnar nýta sér heimsendamyndmál til að sannfæra áheyrendur um að grípa til aðgerða. En þegar aktívistar á borð við Gretu Thunberg leggja áherslu á þau framfaraskref sem standa okkur til boða og leggja til aðgerðir fyrir bæði stórfyrirtæki og einstaklinga setur Opinberunarbókin ekki fram neinar mögulegar umbætur, heldur spáir því hreinlega að meginþorri mannkyns steypist til glötunar án nokkurrar vonar um undankomuleið. Vegna þessa einkennis heimsendasýnar Opinberunarbókarinnar, það að hún setur endalokin fram sem óumflýjanleg, er hún af mörgum talin hættuleg. Of mikið heimsendatal í umhverfisverndarorðræðu geti gefið í skyn að niðurbrot náttúrunnar sé einfaldlega óumflýjanlegt.

Aftur á móti má einnig túlka Opinberunarbókina á þveröfugan hátt. Jóhannes hvetur kristna menn til að vera staðfastir í trúnni með því að lofa þeim upprisu eftir dauðann. Til þess að tryggja umbun sína í framhaldslífinu verði kristnir að streitast á móti kúgun Rómaveldis þrátt fyrir þá tímabundnu erfiðleika sem í því felast. Í umhverfisverndarumræðu nútímans eru einstaklingar hvattir til að gera róttækar og krefjandi breytingar á lífi sínu, til dæmis hvað varðar samgöngur, mataræði og orkuneyslu. Þessar breytingar krefjast staðfestu þrátt fyrir fjárhagslegar afleiðingar eða tímabundna óhagkvæmni, en lofa um leið umbun í fyllingu tímans, voninni um að kynslóðir framtíðarinnar muni njóta góðs af árangrinum.

epa08968604 Health workers with the mask inside the intensive care unit for COVID patients of San Filippo Neri Hospital in Rome, Italy, 27 January 2021.  EPA-EFE/MASSIMO PERCOSSI
 Mynd: EPA-EFE - Ansa

Kórónuveirufaraldurinn hefur einnig endurvakið heimsendaorðræðu. Í eðli sínu falla smitsjúkdómar vel að hugmyndinni um heimsendi, ekki síst vegna þess að þeir eru bæði alls staðar og hvergi. Drepsóttir eru líka einkennandi stef í Opinberunarbókinni, þar sem talað er um plágurnar sjö sem ríði yfir jörðina. Þeirri bókstafstúlkun hefur meðal annars verið varpað fram að Opinberunarbókin hafi í raun spáð fyrir um útbreiðslu COVID-19 fyrir rúmum tvö þúsund árum.

Í gegnum mannkynssöguna hafa farsóttir á borð við kórónuveirufaraldurinn afhjúpað fallvaltleika mannlegrar tilveru, valdið lamandi ótta meðal fólks og ógnað trausti þess á grunnstoðum samfélagsins. Hér kemur til skjalanna upprunaleg merking orðsins apocalypse, sem í dag merkir yfirleitt einfaldlega ,,heimsendir.“ Upprunalega merkir orðið apocalypse þó opinberun, það að hulunni sé svipt af leyndum sannleik sem jafnvel hefur verið afneitað. Og veiran hefur einmitt opinberað fallvaltleika og óstöðugleika þeirra félagslegu kerfa sem við tókum áður sem sjálfsögðum og eilífum, skapað aukið atvinnuleysi, fæðuóöryggi og gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfi heimsins.

Á áhugaverðan hátt hefur pólitísk umræða í kringum heimsfaraldurinn meira að segja sameinað hið trúarlega og hið veraldlega, líkt og í twitterfærslu Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, þriðja maí í fyrra, sem hljómar eins og hún sé sótt beint í Biblíuna:

epa08939631 (FILE) US President Donald J. Trump walks out of the South Portico to greet Prime Minister of Israel Benjamin Netanyahu (not pictured) at the White House, in Washington, DC, USA, 27 January 2020. The presidency of Donald Trump, which records two presidential impeachments, will end at noon on 20 January 2021.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS

,,Og þá kom Plága, mikil og voldug Plága, og heimurinn varð aldrei aftur samur! En Bandaríkin risu upp úr dauða þessum og eyðileggingu, [...] og urðu betri en nokkru sinni fyrr!“

Eflaust finnst sumum nóg komið af þessum drunga, en ef til vill þarf ekki að skilja heimsendi eingöngu á neikvæðan hátt. Lok Opinberunarbókarinnar lýsa nefnilega sköpun hinnar nýju Jerúsalem, þar sem skyndilega rofar til með loforði um betri tíma. Fegurð og öryggi nýju Jerúsalem eru einmitt undirstrikuð með jákvæðu vistfræðilegu myndmáli. Ár hennar eru tærar eins og kristall, ólíkt því mengaða vatni og blóðuga hafi sem áður var lýst. Og andstætt við skaðbrunnin tré jarðarinnar ber lífstré hinnar nýju Jerúsalem blöð sem eru ,,til lækningar þjóðunum.“ Í mörgum austrænum trúarbrögðum er tíminn álitinn eilíf hringrás endurfæðingar, þar sem eitt skeið líður undir lok en annað hefst um leið. Nýtt upphaf. Hliðstæðar kenningar er að finna í vísindaheiminum, til dæmis að alheimurinn muni að lokum dragast saman í einn punkt og síðan verði annar Miklihvellur. Og að loknum ragnarökum í norrænni goðafræði rís nýr heimur.

Ef til vill ferst heimurinn á hverjum einasta degi í ólíkum myndum fyrir ólíka aðila. Fólk lendir í ástarsorg, missir ástvini, verður fyrir djúpum vonbrigðum og áföllum, tekur nýja stefnu. Kántrýsöngkonan Skeeter Davis söng „Vita þau ekki að þetta eru endalok heimsins, af því að þú elskar mig ekki lengur?“ í lagi sínu The End of the World frá árinu 1962. Það sem er úrelt víkur fyrir nýju. Gamlar heimsmyndir og hugmyndaheimar eru alltaf að farast og sem betur fer. Þannig endurnýjum við okkur. 

Pistilinn má heyra í heild sinni hér fyrir ofan.
Leiklestur: Jakob van Oosterhout og Brian FitzGibbon.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Konur skulu þegja á safnaðarsamkomum“

Menningarefni

Vitleysan er sannleikanum samkvæm

Pistlar

Barnfóstra og götuljósmyndari

Pistlar

„Þú ert of gömul, ég vil ekki láta sjá mig með þér“