Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Dagur: „Rosalega erfið fæðing“

Mynd: EPA-EFE / EPA

Dagur: „Rosalega erfið fæðing“

24.07.2021 - 17:11
Japan fékk skell í fyrsta leik sínum í handboltakeppninni á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag. Eftir slæma byrjun náðu lærisveinar Dags Sigurðssonar aðeins að sýna mátt sinn og megin en það dugði þó skammt og niðurstaðan 47-30. Dagur segir sína menn ekki vana því spila vel á heimavelli.

Danir náðu öruggri forystu snemma leiks og voru ellefu mörkum yfir í leikhléi, 25-14. Þær bættu svo í í síðari hálfleik og unnu að lokum sannfærandi sigur 47-30. 

„Þetta var rosalega erfið fæðing, þetta byrjaði eins illa og það gat orðið við lendum 5-0 undir, náum ekki að klukka þá né skora úr færum þegar við loksins fáum þá. Það var ekki fyrr en við skiptum yfir í 7 á móti 6 að við náum að komast í færi,“ sagði Dagur í samtali við RÚV í leikslok sem sagði liðið geta betur en það sem það sýndi í dag.

Jacob Holm var markahæstur í danska liðinu með níu mörk en Hiroki Motoki skoraði átta fyrir það japanska. Aldrei hafa fleiri mörk verið skoruð af einu liði í leik á Ólympíuleikum. Frakkar og Svíar deildu fyrra meti sem var 44 mörk.

Dagur segir í samtali við RÚV að sínir menn séu fyrir það fyrsta ekki vanir of mikið af áhorfendum svo tómar hallir trufli þá lítið.

„Þeir eru í grunninn ekki vanir því að spila í fullum höllum svo í grunninn er þetta ágætt fyrir okkur. Það er þekkt að karla og kvennaliðið í Japan hafa alltaf spilað illa á heimavöllum. Það er fullt af ástæðum fyrir því, þeir eru bara ekki vanir því að hafa utanaðkomandi pressu á sér.“ 

Danmörk mætir Eygptalandi næst á mánudagsmorgun og Japan mætir Svíþjóð, silfurliði HM 2021, seinna sama dag.