Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfir 300 létu lífið í óeirðunum í Suður-Afríku

23.07.2021 - 06:34
Looters outside a shopping centre alongside a burning barricade in Durban, South Africa, Monday July 12, 2021. Police say six people are dead and more than 200 have been arrested amid escalating violence during rioting that broke out following the imprisonment of South Africa's former President Jacob Zuma. (AP Photo/Andre Swart)
 Mynd: AP
Yfir 300 manns hafa látið lífið í óeirðum sem skekið hafa Suður-Afríku undanfarnar vikur, samkvæmt síðustu samantekt lögregluyfirvalda. Í tilkynningu sem skrifstofa forseta Suður-Afríku sendi frá sér í gær segir að alls hafi 337 týnt lífinu í óeirðunum; 79 í Gauteng-héraði og 258 í KwaZulu-Natal, heimahéraði Jacobs Zuma, fyrrverandi forseta.

Óeirðirnar hófust daginn eftir að hann gaf sig fram við fangelsisyfirvöld þar og hóf afplánun 15 mánaða fangelsisdóms fyrir óvirðingu við stjórnlagadómstól landsins og rannsóknarnefnd á hans vegum, sem meðal annars rannsakar spillingarmál sem Zuma er rammflæktur í.

Ofbeldisaldan sem þá reis er sögð sú blóðugasta sem riðið hefur yfir landið frá því að aðskilnaðarstefnan leið undir lok og núverandi forseti, Cyril Ramaphosa, gekk svo langt að kalla atburði síðustu vikna tilraun til uppreisnar.

Mörg þúsund handtekin og feiknartjón á mannvirkjum

Óeirðirnar hafa að mestu verið bundnar við KwaZulu-Natal og Gauteng, fjölmennustu héruð landsins. Þeim virðist nú að mestu lokið, í bili að minnsta kosti. Sex menn hafa verið handteknir, þar á meðal vinsæll útvarpsþáttarstjórnandi, sakaðir um að hvetja til uppþota og ofbeldisverka.

Nokkur þúsund manns til viðbótar eru á bak við lás og slá, ákærð fyrir skemmdarverk, gripdeildir, íkveikjur og ofbeldisverk.

Yfirvöld hafa ekki tölu á fjölda þeirra sem hlutu meiri og minni meiðsl í óeirðunum og ljóst er að efnahagslegt tjón er geypimikið. Bara í KwaZulu-Natal, þar sem miklar skemmdir voru unnar á 161 verslunarmiðstöð, 11 vörugeymslum og átta verksmiðjum, gera fyrstu áætlanir ráð fyrir að tjónið nemi jafnvirði 170 milljarða króna.