Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þessum ættir þú að fylgjast með á Ólympíuleikunum

epa07915476 Simone Biles of USA competes in the Vault women's Final at the FIG Artistic Gymnastics World Championships in Stuttgart, Germany, 12 October 2019.  EPA-EFE/RONALD WITTEK
 Mynd: EPA

Þessum ættir þú að fylgjast með á Ólympíuleikunum

23.07.2021 - 12:50
Ólympíuleikarnir í Tókýó verða formlega settir í dag. Keppni í hinum ýmsu greinum hefst svo strax á morgun, laugardag, og hér fyrir neðan höfum við tekið saman nokkra keppendur sem vert er að fylgjast sérstaklega með á leikunum í ár.

Simone Biles - Fimleikakona frá Bandaríkjunum

Simone Biles þarf vart að kynna fyrir heimsbyggðinni en hún er af mörgum talin einn besti íþróttamaður allra tíma. Biles hefur ekki tapað keppni í fjölþraut í fimleikum frá árinu 2013, hún hefur 19 sinnum orðið heimsmeistari, á fjögur gullverðlaun frá Ólympíuleikunum í Ríó og fjögur fimleikastökk nefnd í höfuðið á sér eftir að hafa orðið fyrst til að framkvæma þau á stórmóti. 

Takist Biles að verja Ólympíutitil sinn í fjölþraut verður hún fyrsti fimleikakeppandi frá árinu 1968 til að gera svo. Eitthvað stórkostlegt þarf að gerast til þess að Biles nái sér ekki í fleiri gull í safnið en hún stefnir meðal annars á að framkvæma svo erfitt stökk á hesti að einungis örfáir karlar hafa keppt með það á stórmóti. Biles keppir með kvennaliði Bandaríkjanna þriðjudaginn 27. júlí og í fjölþrautarkeppninni fimmtudaginn 29. júli. Undankeppni í fimleikunum hefst 25. júlí. 

epa07905779 Simone Biles of USA reacts prior to the women's Team Final at the FIG Artistic Gymnastics World Championships in Stuttgart, Germany, 08 October 2019.  EPA-EFE/DANIEL KOPATSCH
 Mynd: EPA
Simone Biles

Caeleb Dressel - Sundmaður frá Bandaríkjunum

Það er auðvitað óhjákvæmilegt sem sundmaður frá Bandaríkjunum að vera borinn saman við Michael Phelps. Caeleb Dressel er hins vegar ákveðinn í því að láta samanburðinn ekki á sig fá og stefnir á að bæta við Ólympíugullinn tvö sem hann á nú þegar. Dressel keppir í þremur einstaklingsgreinum, 50 og 100 metra skriðsundi og 100 metra flugsundi. Þá er talið líklegt að hann verði í þremur eða fjórum boðsundssveitum og gæti þannig möguleg nælt sér í sjö gullverðlaun. Dressel hefur keppni fimmtudagsmorguninn 27. júlí líkt og sundmaður okkar Íslendinga, Anton Sveinn McKee.

Laurel Hubbard - Kraftlyftingakona frá Nýja Sjálandi

Mörg bíða með eftirvæntingu eftir hinni 43 ára gömlu Laurel Hubbard sem mun keppa í kraftlyftingum í 87 kílógramma flokki og er talin líklegur verðlaunahafi. Hubbard er fyrsti transkeppandinn í sögu Ólympíuleikanna og var gert mögulegt að keppa eftir að Alþjóðaólympíunefndin breytti reglum sínum árið 2015 þannig að trans íþróttafólk fengi að keppa í kvennaflokki ef testósterónmagn í líkama þeirra væri fyrir neðan ákveðinn þröskuld. Keppni í kraftlyftingum í 87 kílógramma flokki kvenna hefst mánudaginn 2. ágúst. 

epa06370232 Transgender athlete Laurel Hubbard from New Zealand competes in the women's 90+ kg weight class competition at the Weightlifting World Championships at the Anaheim Convention Center in Anaheim, California, USA, 05 December 2017. Hubbard placed second in the Snatch category. EPA-EFE/MIKE NELSON
 Mynd: EFE - EPA
Laurel Hubbard

Novak Djokovic - Tenniskarl frá Serbíu

Nýkrýndi Wimbledon-meistarinn Novak Djokovic mætir til leiks í fjórða skipti á Ólympíuleikum en hann keppti í Peking 2008, London 2012 og Ríó 2016. Einu verðlaun hans af leikunum eru frá 2008 þar sem hann fékk brons og á því eftir að bæta Ólympíugulli við 20 risatitlana sína í tennis. Tækifærin gerast sennilega ekki betri til þess þar sem hvorki Rafael Nadal né Roger Federer taka þátt á leikunum að þessu sinni.

Takist Djokovic að sigra mótið á hann enn möguleika á að verða fyrsti karlinn til að klára hina svokölluðu „Gullnu alslemmu“, það er sigra Opna franska, Opna ástralska, Opna bandaríska, Wimbledon og Ólympíuleika allt á sama árinu. Djokovic hefur nú þegar unnið Opna franska og ástralska, sem og Wimbledon en Opna bandaríska fer fram í september. Tenniskeppni Ólympíuleikanna hefst 24. júlí, sýnt verður beint frá úrslitum í einliðaleik karla á RÚV 1. ágúst. 

Shelly-Ann Fraser-Pryce - Hlaupari frá Jamaíku

Shelly-Ann Fraser-Pryce er 34 ára gömul og hefur á ferlinum náð í sex Ólympíuverðlaun. Leikarnir í ár gætu orðið hennar síðustu en hún virðist þrátt fyrir það vera í sínu allra besta formi. Hún er orðin næst hraðasta kona heims á eftir heimsmethafanum Florence Griffith-Joyner, og hraðasta kona heims sem enn er á lífi, en Fraser-Pryce hljóp 100 metrana á 10,63 sekúndum í júní. Hún er sömuleiðis ein af þremur konum í sögunni sem tekist hefur að verja titill sinn í 100 metrum og gæti orðið sú fyrsta til þess að vinna hann þrisvar. 

Spurning er hvort óbætandi heimsmet Flo-Jo, 10,41 sekúnda, verði loksins bætt, 33 árum síðar, en keppnin í 100 metrunum verður að minnsta kosti hörð. Undanrásir hefjast föstudaginn 30. júlí og hlaupið verður til úrslita daginn eftir. 

epa09234301 Shelly-Ann Fraser-Pryce of Jamaica celebrates after the 100m Women final race at the Doha Diamond League athletics meeting at Qatar Sports Club in Doha, Qatar, 28 May 2021.  EPA-EFE/Noushad Thekkayil
 Mynd: EPA
Shelly-Ann Fraser-Pryce

Sky Brown - Hjólabrettakona frá Bretlandi

Keppni á hjólabrettum er ein af fjórum nýjum greinum á Ólympíuleikunum í Tókýó. Sky Brown er varð yngsti atvinnu hjólabrettakappi í heiminum 10 ára og er meðal yngstu keppenda á þessum Ólympíuleikunum, aðeins 13 ára gömul. Það þýðir þó ekki að hún verði ekki í baráttunni um verðlaun á leikunum en þrátt fyrir að hafa lent í lífshættulegu slysi fyrir tæpu ári síðan þá vann hún gullverðlaun í kvennaflokki á X Leikunum sem fram fóru stuttu fyrir Ólympíuleikana. Sýnt verður frá hjólabrettakeppni kvenna aðfaranótt 4. ágúst. 

Hend Zaza - Borðtenniskona frá Sýrlandi

Sky Brown er meðal yngstu keppenda á leikunum en Hend Zaza er sú yngsta. Hún er aðeins 12 ára gömul, fædd árið 2009, og keppir í borðtennis fyrir Sýrland. Borðtennis er ein af þeim íþróttum sem hafa ekkert aldurstakmark en Zaza sló út 42 ára mótherja sinn í undankeppni Vestur-Asíu fyrir leikana. Þetta er í fyrsta sinn sem sýrlenskur borðtennisspilari tekur þátt á Ólympíuleikum eftir að hafa komist í gegnum úrtökumót. Ólíklegt verður að telja að Zaza komist alla leið í úrslit en sýnt verður frá úrslitum í borðtennis kvenna fimmtudaginn 29. júlí. 

Listi yfir allar útsendingar RÚV frá leikunum má nálgast hér.