Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Slæmt ástand í Henan-héraði í Kína

23.07.2021 - 11:58
Erlent · Hamfarir · Asía · Flóð · Kína · Veður
epaselect epa09356174 People walk in the flooded road after record downpours in Zhengzhou city in central China's Henan province Tuesday, July 20, 2021 (issued 21 July 2021). Heavy floods in Central China killed 12 in Zhengzhou city due to the rainfall yesterday, 20 July 2021, according to official Chinese media. Over 144,660 people have been affected by heavy rains in Henan Province since July 16, and over 10,000 had to be relocated, the provincial flood control and drought relief headquarters said Tuesday.  EPA-EFE/FEATURECHINA CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - FeatureChina
Flóð í Henan-héraði í miðhluta Kína hafa kostað yfir fimmtíu manns lífið. Gert er ráð fyrir að manntjón sé mun meira. Hundruð þúsunda hafa verið flutt að heiman, en margir eru innlyksa vegna vatnavaxta og ónýtra samgöngumannvirkja.

Milljónir íbúa Henan-héraðs hafa fengið að kenna á vatnsveðrinu síðustu sólarhringa. Hátt í fjögur hundruð þúsundum hefur verið forðað að heiman. Björgunarsveitir eru á ferð á gúmmíbátum og flekum til að forða fólki undan vatnsflaumnum. Verst er ástandið í héraðshöfuðborginni Zhengzhou. Þar hafa slökkviliðsmenn í dag dælt aurlituðu vatni úr göngum, þar á meðal jarðlestagöngum þar sem tólf manns drukknuðu fyrr í vikunni. Þá féll álíka mikið regn á þremur sólarhringum og í meðalári. 

Að sögn ríkisfjölmiðlanna í Kína hafa margir íbúar Henan verið í sjálfheldu dögum saman án matar og vatns. Vegir eru orðnir að leðju, ár flæða yfir bakka sína og heilu landsvæðin hafa breyst í forarsvað. Í nótt færðist regnsvæðið norður á bóginn til borgarinnar Xinxiang. Fréttamyndir þaðan sýna fólk vaða vatnselginn í mitti þegar það fer þar um götur.

Ekki er útlit fyrir að ástandið batni á næstunni. Að sögn veðurfræðinga nálgast fellibylurinn In-Fa með roki og hellirigningu sem á eftir að dembast yfir hluta Henan-héraðs næstu sólarhringana.

Tjón af völdum hamfaranna er orðið verulegt. Yfirvöld í Zhengzhou áætla að það nemi jafnvirði 1.260 milljarða króna. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV