Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Seyðfirðingar fá loks sætabrauð

Mynd: RÚV / RÚV

Seyðfirðingar fá loks sætabrauð

23.07.2021 - 10:00

Höfundar

Loksins er komið bakarí á Seyðisfjörð en um árabil hefur fólk þurft að keyra upp á Egilsstaði til þess að kaupa sér brauð. Samfélagsbakaríið var stofnað í kjölfar skriðufallanna og er hugmyndin að þar myndist líflegt umhverfi þar sem bæjarbúar geti komið saman.

Flestum eru í fersku minni hamfarirnar á Seyðisfirði í desember, skriðuföll sem höfðu í för með sér mikla eyðileggingu. Þó þar hafi orðið mikið tjón þá leiddu hamfarirnar af sér allavega eitt gott, en þar er hið svokallaða Samfélagsbakarí Herðubrauð sem varð til í kjölfar skriðufallanna. Ekkert bakarí hafði verið á Seyðisfirði árum saman en nú hafa nokkrir einstaklingar tekið sig saman og fengið aðstöðu í félagsheimilinu Herðubreið þar sem þeir baka af miklum móð ofan í Seyðfirðinga og þeirra gesti.  

„Við byrjuðum að baka brauð reglulega eftir skriðurnar fyrir samfélagið,“ segir Halldóra K. Lárusdóttir, bakari hjá Samfélagsbakaríinu Herðubrauð. Fólk hafi ekki mátt vera heima hjá sér svo það var mikið í félagsheimilinu Herðubreið, þá þurfti það mat og aðstöðu til að vera. „Vikurnar eftir vorum við að baka um helgar og smátt og smátt. Svo óx hugmyndin og varð hálf gígantísk,“ segir Halldóra. 

Stofnaður var til hvatasjóður sem átti að stuðla að atvinnusköpun eða einhvers konar uppbyggingu eftir hamfarirnar. Þær hafi nokkrar ákveðið að sækja um í sjóðinn enda hafi mikil eftirspurn verið eftir bakaríi á Seyðisfirði. „Við fengum þar góðan styrk og erum nú að leggja grundvöll að því hvað Samfélagsbakarí er.“  

Eins og staðan er í dag eru þær tvær sem baka þrisvar í viku en draumurinn er að bakaríið verði að samstarfsverkefni við bæjarbúa. Til dæmis langi þær að fá til sín gestabakara og að fólk komi og deili sínum uppskriftum og segi frá. „Það er svo fjölþjóðlegt samfélag sem býr hérna og það væri skemmtilegt ef fólk kæmi með bakkelsi frá sínum menningarheimum,“ segir Halldóra. Þá langi þær að vera með viðburði og taka þátt í hátíðum á borð við LungA og smiðjuhátíðina sem haldin er í tengslum við Tækniminjasafnið.  

Bæjarbúar hafa tekið vel í bakaríið og eru almennt mjög ánægðir með framtakið. „Fólk talar um hvað það er gott að það sé loksins komið bakarí og að þurfa ekki að fara upp á Egilsstaði til að kaupa brauð.“ 

Sjálf er Halldóra mjög hrifin af tilraunabakstri og ætlar að vera dugleg í sumar að nota flóruna og þang í bakkelsið sitt. 

Þá vonar Halldóra að Herðubrauð verði að lifandi samverustað þar sem fólk geti komið saman og spjallað og er hugmyndin að staðurinn verði hálfgerð innsetning og bakarí í senn, með fallegu og góðu bakkelsi.  

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Hingað kemur fólk til að skemmta sér hvaðanæva að“

Mannlíf

Fá aldrei nóg af óbyggðunum

Tónlist

Sjómannsdóttir fékk langþráð símtal frá Vitafélaginu

Mannlíf

„Það eina sem ég vil er gleði, glimmer og litir“