Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ríkisstjórnin fundar um tillögur Þórólfs að aðgerðum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin fundar í dag um tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, um að taka upp innanlandsaðgerðir að nýju til þess að bregðast við fjölgun kórónuveirusmita. 78 smit greindust í fyrradag og alls 172 smit á þremur dögum í vikunni.

Þórólfur vildi í gær ekkert gefa upp um tillögurnar en sagðist ekki leggja til jafn harðar aðgerðir og áður vegna bólusetninga. Búist er við að aðgerðir sem byggja á tillögunum verði kynntar í dag.

Landspítalinn var í gærkvöld færður á hættustig vegna stöðunnar. Sigríður Gunnarsdóttir, starfandi forstjóri spítalans, sagði við fréttastofu í gærkvöld að um 240 starfsmenn væru ýmist í einangrun eða sóttkví, sem skapi ákveðna rekstrarógn hjá spítalanum.

Smit hafa komið víða upp í samfélaginu síðustu daga. Forsvarsmenn hátíða sem eiga að fara fram um verslunarmannahelgina bíða eftir því til hvaða aðgerða verður gripið áður en ákvörðun verður tekin um hátíðirnar. Búið er að aflýsa einni hátíð sem átti að vera á Flúðum.  Þá hefur hlöðuballi sem átti að halda á Mærudögum á Húsavík um helgina verið aflýst.

Smit kom upp á Reycup-fótboltamótinu í Laugardal í gær. Tvö lið frá tveimur félögum drógu sig í kjölfarið úr keppni og þriðja liðið var þegar búið að gera það vegna gruns um smit. Öll eru liðin af höfuðborgarsvæðinu. Keppendur frá þessum félögum hafa ekki gist í Laugardalnum og ekki tekið þátt í sameiginlegum máltíðum, að sögn mótshaldara.

Á fjórða þúsund manns fóru í sýnatöku á höfuðborgarsvæðinu í gær en tölur um smit gærdagsins verða birtar um klukkan ellefu.