Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Osaka: „Stærsta afrekið á íþróttaferlinum“

epa09360405 Japanese tennis player Naomi Osaka holds up the torch after lighting the Olympic cauldron during the Opening Ceremony of the Tokyo 2020 Olympic Games at the Olympic Stadium in Tokyo, Japan, 23 July 2021.  EPA-EFE/YONHAP SOUTH KOREA OUT
 Mynd: EPA-EFE - YNA

Osaka: „Stærsta afrekið á íþróttaferlinum“

23.07.2021 - 18:53
Það var tennisstjarnan Naomi Osaka sem tendraði Ólympíueldinn í Tókýó í dag þegar leikarnir árið 2020 voru settir, ári síðar en þeir áttu upphaflega að hefjast. Osaka sem hefur unnið marga frækna sigra á tennisvellinum segir í færslu á Twitter eftir setningarhátíðina að þetta sé stærsta afrekið á hennar ferli.

Það byrjuðu strax að kvisast út orðrómar um að mögulega gæti Osaka verið í aðalhlutverki á setningarathöfninni því allt í einu var fyrsti tennisleikur hennar, sem átti að fara fram á morgun, horfinn af dagskránni. Eftir að Ólympíueldurinn hafði ferðast á milli goðsagna í japönsku íþróttalífi, verkamanna sem komu að leikunum á einn eða annan hátt og einstaklinga sem bjuggu á svæðum þar sem flóðbylgjur og jarðskjálftar skullu á fyrir tíu árum síðan, var röðin komin að Osaka.

Osaka sem hefur undanfarið talað opinskátt um geðheilsu sína og andleg vandamál fékk kyndilinn afhentan, fór með hann smá spöl og tendraði svo glæsilegan Ólympíueldinn sem logar allt til enda leikanna 9. ágúst nk.

„Þetta er án nokkurs vafa mitt stærsta íþróttaafrek og mesti heiður heiður sem mér hefur hlotnast á lífsleiðinni. Ég á engin orð til að lýsa því hvernig mér líður þessa stundina en ég veit að ég er uppfull af þakklæti,“ sagði Osaka á Twitter síðu sinni eftir að hafa tendrað Ólympíueldinn.