Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hraðinn í útbreiðslu og fjöldi smita kemur á óvart

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna segir það hafa áhrif á útbreiðslu smita að fólk sé í sumarfríi og á faraldsfæti. Síðustu fjóra daga hafa samtals 248 greinst með COVID-19 innanlands og á tíunda þúsund hefur mætt í sýnatöku.

Innanlandsmit hafa ekki verið jafnmörg á þessu ári og síðustu daga, í gær greindust 76 innanlands.

Jóhann B. Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna, segir í samtali við fréttastofu að hraðinn og fjöldinn koma nokkuð á óvart. Talsverður fjöldi bólusettra hefur smitast og er smitandi.

„Ég held það hafi alveg verið viðbúið að það væru einhver smit og það væri eitthvað að gera við rakningarnar. Ég held að allir hafi vonast til þess að bólusetningin myndi veita meiri viðstöðu við smiti.“ 

Jóhann segir að bylgjan núna sé ekki frábrugðin upphafi þeirra fyrri. Smit breiðist þaðan sem fólk kemur saman í stærri hópum. Bólusetningar hófust af krafti á vordögum og miklar vonir bundnar við áhrif þeirra á útbreiðslu smita.

Framan af ári fóru dagleg smit nánast aldrei yfir tíu og fyrir kom að engin ný smit greindust. Hafa ber í huga að samkomutakmarkanir voru talsverðar. 

„Það sem hefur hjálpað til við hinar bylgjurnar eru takmarkanir. Þegar fólk hægir á sér þá hægir á öllu og það gerir gríðarlegan mun,“ segir Jóhann.

Smitum fjölgaði nokkuð í apríl og fjöldinn náði hámarki 18. apríl þegar þau reyndust vera 27. Þann dag mættu ríflega fjögur þúsund í sýnatöku innanlands.

Eftir það fækkaði smitum og voru komin undir tíu daglega undir lok mánaðarins. Frá 17. maí þegar ekkert smit greindist voru þau aldrei fleiri en sjö daglega og iðulega greindist ekkert smit innanlands.

Öllum samkomutakmörkunum var aflétt föstudaginn 25. júní síðastliðinn, þann dag greindist einn smitaður, fjórir daginn eftir en mjög fáir dagana á eftir.

Laugardaginn 26. júní fóru 765 í skimun. Þann 13. júlí voru ný smit fimm, daginn eftir voru þau tíu, þrettán tveimur dögum síðar og kúrfan reis mjög hratt frá 19. júlí, þann dag greindust 38, í fyrradag 78 og 76 í gær.