Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Erum að dæla Powerade í gesti"

23.07.2021 - 17:00
Gylfi Þór Þorsteinsson
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Áfram fjölgar í farsóttarhúsum Rauða krossins en 95 manns eru nú þar í einangrun með COVID-19. Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsanna, segir starfsfólk búast við töluverðri fjölgun gesta næstu daga. Gestirnir komi víða að og breyttur andi sé í húsunum frá fyrri bylgjum faraldursins. Gylfi Þór segir niðurgang vera leiðinlegan fylgikvilla Delta-afbrigðisins sem töluvert sé af meðal smitaðra.

„Það er að fjölga gífurlega hratt hjá okkur, við erum með 95 í einangrun núna. Þar fyrir utan erum við svo með 210 í skimunarsóttkví sem er fólk sem er að koma óbólusett til landsins og þarf að vera hjá okkur í fimm daga. Gestir okkar eru á öllum aldri, bæði Íslendingar og ferðamenn. Þeir koma alls staðar að á landinu, að norðan, austan og af höfuðborgarsvæðinu, “ segir Gylfi Þór. 

Margir bólusettir eiga erfitt með að trúa því að þeir hafi smitast

Andinn í farsóttarhúsunum hefur breyst frá fyrri bylgjum faraldursins en nú eru margir hinna smituðu bólusettir. Gylfi Þór segir að margir eigi erfitt með að trúa því í fyrstu að þeir hafi greinst jákvæðir þrátt fyrir bólusetningu. Hann segir þá að erlendir ferðamenn séu margir mjög svekktir þar sem tveggja vikna dvöl á sóttvarnarhúsi í sumarfríi setji talsvert strik í reikninginn. Margir þeirra hafi einnig verið bólusettir. Gylfi Þór segir það koma sér mest á óvart hve hratt Delta-afbrigðið virðist nú dreifa sér. 

„Við vitum tengingar útsettra við þá sem eru í einangrun og við erum að sjá meira um að fleiri innan sama hóps séu að greinast en áður, “ segir Gylfi Þór.

Margir að fá niðurgang en kveisan gengur fljótt yfir

Til viðbótar við hefðbundin COVID-19 einkenni ber nú meira á nýjum kvilla Delta-afbrigðisins; magakveisu og niðurgangi. Gylfi Þór segir marga vera að fá magakveisu sem gangi þó fljótt yfir. Aðalmálið sé að fólk haldi að sér vökva eins og þekkist með almennar magapestir. 

„Niðurgangurinn virðist vera að koma sterkur inn ef við getum orðað það svo. Það eru þessi hefðbundnu einkenni sem fylgja þessu; slæmur hósti, erfiðleikar í öndunarfærum og höfuðverkur en núna virðist magakveisan vera algeng líka og þá þarf fólk svolítið að passa sig því ef hún er kræf í einhverja daga er hætta á að fólk fari að þorna upp. En við erum að dæla Powerade og Gatorade í gesti,  “ segir Gylfi Þór.